Hringir og hreyfing

Við Imma sáum nýlega þessa hugmynd hjá Segni Mossi (ítölsk vinnustofa um dans og listir) og okkur leist svo vel á hana að við bara urðum að fá að prófa hana með leikskólabörnunum okkar. Hún passaði líka svo fínt inn í elstu barna starfið okkar í augnablikinu þar sem við erum núna einmitt að vinna með og rannsaka grunnform. Á meðan börnin voru að gera sameiginlega listaverkið vorum við að hlusta á fiskalagið úr Karnivali dýranna eftir Saint-Saëns. Okkar fannst það passa fullkomlega við og gerði ferlið töfrum líkast svo upplagt var að dansa á myndinni í hringi eða þá velta sér og snerta hringina eins og sést á myndskeiðinu.

Hugmyndin er mjög einföld. Börnin lögðust á magann á rúllugardínu-efni og teiknuðu hringi með því að halda á litkrít með handleggina beina út frá sér á meðan þau hreyfðu hendurnar í stóran hring í kringum búkinn. Svolítið eins og að gera engla eða sprellikarla nema bara með höndunum.

Til að undirbúa börnin höfðum við verið við að skoða og finna form í listaverkum eftir t.d. Kandinsky, Van Gogh og íslenska listamenn líkt og Þorvald Skúlason, Gerði Helgadóttur, Nínu Tryggvadóttur og Gunnlaug Scheving. Listaverkin voru sum abstrakt en önnur voru það ekki og þá þurftu börnin að vanda sig og einbeita sér til að sjá formin. Okkur fannst þetta vera góður undirbúningur fyrir börnin þar sem þau voru einmitt líka að fara að gera listaverk þar sem hægt væri að finna form.

Myndskeið

Tónlistin í myndskeiðinu er hér á Spotify.

Síðast breytt
Síða stofnuð