Sjáðu! Regnboginn er kominn!

Lundaból, Garðabæ

Nýlega var ég með tónlistarnámskeið í leikskólanum Lundabóli. Þar prófaði ég nýja hugmynd um það hvernig hægt væri að tengja saman tónlist og myndlist í söngstund með börnunum. Hún gekk ljómandi vel og ég var mjög ánægð með útkomuna. Ég þakka börnum og starfsfólki í Lundabóli kærlega fyrir skemmtilegar stundir!

Grunnhugmyndin er að við syngjum saman lag um regnbogann og svo mála börnin "regnboga" með vatnslitum á stórt blað. Í lokin sprautum við vatni á málverkið til að minna á rigninguna - og líka bara til að sjá hvernig málverkið breytist á töfrandi hátt.

Lagið er einfalt. Þar er bara talað um fjóra liti (en með eldri börnum er samt gott að ræða að það sé hægt að sjá fleiri liti í regnboganum: rautt, appelsínugult, gult, grænt, blágrænt, blátt, fjólublátt). Við syngjum lagið í hvert skipti sem við byrjum að mála með nýjum lit þannig að það er endurtekið fjórum sinnum. Mér fannst athyglisvert að sjá hvernig yngri börnin máluðu aðallega loðrétt en þau eldri oftast lárétt og líktu þannig meira eftir regnboganum.

Regnboginn er kominn

Sjáðu! Regnboginn er kominn!
Sjáðu! Regnboginn er kominn!
Rauður, gulur,
grænn og líka blár

Í myndskeiðinu syng ég reyndar "Gulur, rauður, / grænn og líka blár", en síðan hef ég áttað mig á að betra sé að hafa rauðan á undan til að hafa litina í sömu röð og í regnboganum.

Myndskeið

Eins og sést í myndskeiðinu er líka gaman að skapa smá stemmningu með því að að láta rigna á börnin (með úðabrúsa), að leyfa þeim að prófa rigningarhljóðfæri og síðan að hafa "rigningartónlist" sem undirspil á meðan þau eru að mála.

Rigningar-hljóðfæri

Vatnslitir, penslar og úðabrúsi

Sjáðu! Regnboginn er kominn

Síðast breytt
Síða stofnuð