8 er snjókarl
6 er með bumbu
9 er með haus
8 er snjókarl
sem úti fraus.
Tölustafurinn 8 er auðþekkjanlegur. Hann er bæði með maga og með haus og líkist þannig snjókarli. En hvernig sér maður mun á 6 og 9? Ég bjó til litla vísu sem hjálpar börnunum til að átta sig betur á hvernig tölustafirnir eiga að snúa - hvort "kúlan" á að vera uppi (eins og haus) eða niðri (eins og bumba). Það kom reyndar í ljós þegar við fórum seinna út að leika okkur í snjónum og búa til snjókarla að það voru alls ekki allir sammála mér um það, að snjókarlar séu bara með tvær kúlur eins og 8. Það er greinilegt að snjókarlar geta verið alls konar :)
6 er með bumbu
9 er með haus
8 er snjókarl
sem úti fraus.
Börnin fengu að ákveða hreyfingar til að nota við vísuna og það var greinilegt að þau fengu ennþá meira áhuga á henni út af því. Ein stelpa fékk hugmyndina um að þegar við segjum "snjókarl" þá leggjum við hægri handlegg í boga yfir hausinn til að mynda efri kúluna á tölustafinn 8, en vinstri handlegg fyrir aftan bakið til að mynda neðra hlutann. Börnunum fannst þetta stórfyndið svo að það sló aldeilis í gegn! Ég mæli með að börnin hjá ykkur búi líka til sínar eigin hreyfingar.
Tónlistin sem ég valdi sem undirspil fyrir þetta myndskeið er laglína sem mörg börn kannast við og tengja við snjókarla. Lagið heitir á ensku "Do you want to build a snowman?" og er úr myndinni Frozen. Hér hjá Söngskóla Maríu Bjarkar má sjá textann á íslensku
Samstarfsfólkið mitt á Aðalþingi fékk dásamlega hugmynd um að börnin gætu skreytt snjókarlana og málað þá með málningu. Það var sannkölluð gleðistund. Eitt barnið hrópaði upp fyrir sig: "Þetta er jólasnjókarl!" og annað barn sagði: "Sjáðu hvað hann er í fallegum kuldagalla!" Lítil stelpa hvíslaði að mér að snjókarlinn myndi bráðum byrja að tala og labba um - samt ekki fyrr en við værum öll farin inn til að borða.
Við notuðum duftlitina frá Pebeo.
Sláðu inn leitarorð hér að neðan.