Amma og draugarnir

"Ú-Ú-Ú! Vaknaðu amma!" kalla Skotta, Móri, Glámur og Þorgeirsboli. Þó að draugarnir úr þjóðsögunum séu vissulega bæði óhugnanlegir og hræðilegir, þá syngja leikskólabörnin samt alveg óhrædd (næstum því) um þá í þessu lagi þar sem þeir mæta einn á fætur öðrum og reyna að vekja og hræða ömmu sem sefur í gljúfrinu. Það dregur reyndar töluvert úr hræðslumætti drauganna að hún amma er sko aldeilis óhrædd við þá. Hún skammar þá hressilega og segir þeim að fara burt og hæta að trufla svefn sinn, börnunum til mikillar ánægju.

Amma og draugarnir

[G] Hún amma mín [C] gamla [C7]
lá úti í [F] gljúfri.
Dimmt var það [C] gljúfur
og [D7] draugalegt[G] mjög.[G7]

En amma mín [C] mælti,
og [F] útaf hún hallaði [C] sér:
"Ég [F] læt engan svipta mig
       [C] svefni í nótt;
[G7] sama hver draugurinn [C] er."

Kom þar hún Skotta 
Með skotthúfu ljóta.
Tönnum hún gnísti,
Glotti og hló
En amma mín mælti...

Kom þar hann Móri 
á mórauðri treyju,
Ofan sitt höfuð 
Af hálsinum tók.
En amma mín mælti...

Kom þar hann Glámur 
Með glyrnurnar rauðar.
Kurteislegt ekki 
Var augnaráð hans.
En amma mín mælti...

Kom þar einn boli, 
Kenndur við Þorgeir, 
Æstur í skapi 
Og öskraði hátt. 
En amma mín mælti...

Loks kom hann afi 
Að leita að ömmu.
"Æ ertu hér," sagði hann,
"Elskan mín góð."
En amma mín mælti...

Lag: Írskt þjóðlag ("Isn't it grand, boys")
Texti: Jónas Árnason
Lagið á Spotify (Þrjú á palli)

Myndskeið

Við Imma höfum í mörg ár notað lagið í tengslum við skugguleikrit. Amma er handbrúða sem leggst fyrir framan tjaldið eftir smá spjall við krakkana þar sem hún segir þeim frá því að hún ætli að hvíla sig í gljúfrinu þó að það sé víst draugagangur, en hún er nú bara alls ekki hrædd við drauga. Við syngjum fyrsta erindið og eftir það fara draugarnir að mæta einn af öðrum og reyna að hræða ömmu. Þegar hver draugur sýnir sig syngjum við erindið um hann. Leikritið endar með því að amma vaknar loksins. Börnin segja henni allt sem hefur gerst, um alla draugana og um afa sem er að leita að henni. Hún endar með að kveðja og segist munu fara heim til afa að gefa honum kaffi og kleinur.

Við einfölduðum laglínuna örlítið miðað við upphaflegu útgáfuna en þar er lengra tónhlé á eftir "Amma mín mælti". Hér hjá Tónmennt má sjá nótur og gítargrip fyrir þá útgáfu.

Til að kynna lagið fyrir börnunum er hægt að segja þeim söguna á bak við það áður en við byrjum að æfa okkur á að syngja textann. Sagan er hér sem PDF-skjal.

Imma teiknaði upp draugana á sínum tíma og skar þá út. Hú skar líka út augu, munn og fleiri einkenni og setti rauða gegnsæja filmu aftan á. Hér er skjal með skapalóni af draugunum sem má nota, en það væri örugglega mjög skemmtilegt að láta börnin búa til drauga sjálf og nota þá í skuggaleikinn.

Draugaþema

Veturinn 2024 var mikill áhugi á draugum og beinagrindum meðal elstu barnanna á Aðalþingi. Í framhaldi af að við sungum lagið um Ömmu og draugana, lékum við líka söguna. Börnin fóru í hlutverk ömmu, drauganna og afa - sem flest börnin vildu alls ekki samþykkja að gæti verið draugur.

Þau bjuggu líka til eigin drauga, bæði sem skuggamyndir og líka á stóru, svörtu tjaldi. Þetta sést í myndskeiðinu hér að neðan, en einnig má þar sjá aðra hugmynd sem við prófuðum en það var að gera draugaspor með tússi á þunnan pappír þar sem tvö börn voru sitt hvoru megin og reyndu að fylgja hvort öðru. Það er ekki alveg auðvelt að lýsa þessu en myndskeiðið sýnir það vel :)

Síðast breytt
Síða stofnuð