Dúkkan hennar Dóru

Stapaskóli (leikskólastig)

Við á yngstu deild í Stapaskóla höfum verið að vinna með lagið Dúkkan hennar Dóru.

Texti

Dúkkan hennar Dóru var með sótt sótt sótt,
hún hringdi og sagði lækni‘ að koma fljótt fljótt fljótt.
Læknirinn kom með sína tösku og sinn hatt,
hann bankaði á dyrnar, rattatattatatt.

Hann skoðaði dúkkuna og hristi sinn haus,
hún strax skal í rúmið og ekkert raus.
Hann skrifaði á miða hvaða lyf hún skyldi fá,
„ég kem aftur á morgun ef hún er enn veik þá”.

Lag: höf. ókunnur
Texti: María B. Johnson

Sagan

Einu sinni var stelpa sem hét Dóra. Hún átti fallega dúkku sem hét Júlía. Júlía var uppáhalds leikfangið hennar Dóru og þær voru alltaf saman.

Dag einn þegar Dóra kom heim úr leikskólanum sá hún að Júlía var orðin lasin. Júlía var með háan hita og þurfti að fara strax í litla bláa rúmið sitt að hvíla sig.

Dóra bað mömmu sína um að hringja í lækninn og biðja hann um að kíkja á Júlíu. Læknirinn bankaði á hurðina og þegar Dóra opnaði, heilsaði hann og tók ofan hattinn sinn. Hann var með stóra rauða læknatösku með sér.

Læknirinn skoðaði dúkkuna hennar Dóru og leist ekki vel á hversu lasin hún var. Hann sagði að Júlía þyrfti að liggja í rúminu í nokkra daga eða þangað til henni líður betur.

Læknirinn skrifaði upp á lyf fyrir Júlíu og sagði við Dóru að Júlía yrði að vera dugleg að taka lyfið sitt svo henni liði betur.

Júlía var mjög duleg að taka meðalið sitt og eftir nokkra daga var hún orðin nógu hress til að fara að leika við Dóru vinkonu sína aftur.

Orð og hugtök

  • sótt (í merkingunni veikindi)
  • raus (þ.e. bull eða þvaður)
  • lyf (meðal)

Sjónrænt/áþreifanlegt

Við bjuggum til stutta sögu í loðtöflustíl sem við höfum verið að lesa fyrir krakkana og út frá henni bjuggum við til lítinn leikþátt þar sem börnin fengu að skiptast á að vera Dóra og læknirinn. Við bjuggum til hurð úr stórum pappakassa sem krakkarnir geta gengið í gegnum og svo fengu þau læknaslopp og dúkku. Mjög einfalt og skemmtilegt.

Við settum söguna líka upp myndrænt á renning sem hangir upp á vegg hjá okkur og þeim finnst mjög skemmtilegt að skoða.

Samþætting

Við höfum leikið með læknadót í hlutverkaleik, sungið lög eins og „ég er lítið lasið skrímsli“ og lesið til dæmis bækurnar Emma meiðir sig og Emma fer til læknis. Við töluðum sömuleiðis um tannlækna í tannverndunarvikunni og lásum bækurnar um Karíus og Baktus og Emma fer til tannlæknis svo eitthvað sé nefnt.

Síðast breytt
Síða stofnuð