Gulur, rauður, grænn og blár

Texti

Gulur, rauður, grænn og blár,
svartur, hvítur, fjólublár,
brúnn, bleikur banani,
appelsína talandi.
Gulur, rauður, grænn og blár,
svartur, hvítur, fjólublár.

Sagan

Einu sinni var banani sem var orðinn yfir sig hrifinn af appelsínu. En bananinn var svolítið feiminn og hann þorði ekki að tala við hana, ekki einu sinni segja góðan daginn. Alltaf þegar hún kom nálægt þá fann hann, hvernig hann roðnaði og varð alveg bleikur í framan, reyndar bleikur út um allt!

Appelsínan hins vegar tók ekki eftir neinu. Hún var alltaf að tala og tala. Hún talaði sérstaklega mikið um liti, því að hún var að spá i hvað uppáhaldsliturinn sinn væri. „Gulur? Rauður? Grænn? Blár? Svartur? Hvítur? Fjólublár? Brúnn? ...“ Allt í einu tók hún eftir banananum, sem var rétt hjá, og hrópaði upp fyrir sig: „Ó hvað þú ert fallegur á litinn! Nú veit ég hvað uppáhaldsliturinn minn er, það er einmitt bleikur eins og þú!“

Upp frá þessu urðu þau bestu vinir. Bananinn kenndi henni reyndar síðar að alls konar litir geta verið fallegir, en það er önnur saga.

Orðaforði og hugtök

Orðaforðinn kemur meira úr sögunni heldur en laginu í þessu tilfelli.

  • Að vera yfir sig hrifinn
  • Svolítið feiminn
  • Nálægt
  • Að roðna
  • Í framan
  • Uppáhald, t.d. uppáhaldslitur

Sjónrænt

Á myndinni má sjá að ég hef málað plastbanana bleikan og gert augu og munn á plastappelsínu. Þetta er auðvitað til að persónugera þau og hjálpa til að segja söguna.

Mikilvægt er að hafa eitthvað í þeim litum sem er sungið um, svo að börnin tengi betur upplifun og orð.

Hreyfing og leikur

Handahreyfingar

Það eru handahreyfingar (tákn með tali) sem oft eru notaðar með þessu lagi.

Leikur

Á myndinni hér að ofan sést í svokallaðar „litatrommur“ sem börnin tromma á með kjuðum. Það getur verið einfaldlega plöstuð blöð í mismunandi lit og stærðum, eða eins og hér, kassalok í mismunandi litum.

Kassalokin í þessu dæmi eru þannig að ef þeim er raðað upp í stærðarröð, þá ruglast röðin á litunum miðað við lagið, og börnin þurfa að vera vakandi þegar lagið er sungið svo að þau hitti rétta litinn með kjuðunum.

Samþætting

Lög

Ef mann langar til að grípa þemað um liti sem koma á óvart eða eru öðruvísi litir en vanalega (eins og með bleika bananann), þá er lagið Litir af plötunni Barnabros 2 tilvalið:

Himininn er bleikur,
hafið það er röndótt,
hárið á mér grænt
og grasið fjólublátt... (o.s.frv.)

Einnig er hægt að syngja önnur lög um litina, t.d. „Grænt, grænt, grænt“, og þá tengja við lokin á sögunni hér að ofan þar sem segir að alls konar litir séu fallegir. Í stað þess að syngja gömlu útgáfuna (sem hefur sætt gagnrýni fyrir að bera keim af kynþáttahyggju) geta börnin sjálf valið hluti í viðkomandi litum sem sungið er um í stað hefðbundna textans. Einnig er hægt að gera öðruvísi texta, eins og þennan:

Grænn, brúnn, blár og appelsínugulur.
Bleikur, grár og líka fjólublár.
Alls konar litir finnst mér vera fagrir,
fyrir vin minn - litla málarann (eða: bleika bananann).

Bækur

Í sambandi við óvenjulega liti getur verið gaman að lesa bókina Þegar litirnir fengu nóg.:

Daníel opnar litakassann sinn en finnur enga liti heldur bara bunka af mótmælabréfum. Svartur vill fá að lita meira en útlínur og blái liturinn er orðinn þreyttur á að lita alla þessa himna og höf!

Það eru auðvitað líka til aðrar barnabækur sem tengjast litum, t.d. Hvernig er koss á litinn.

Og svo má auðvitað ekki gleyma hinni frábæru bók, Litaskrímslinu eftir Önnu Llenas.

Síðast breytt
Síða stofnuð