Grýla á sér lítinn bát

Frá Gimli

Texti

Grýla á sér lítinn bát,
rær hún fyrir sandi.
Þegar hún heyrir barnagrát,
flýtir hún sér að landi.

Þjóðvísa.

Saga

Í gamla, gamla daga þegar jólin nálguðust sat Grýla oft svöng og úrill í helli sínum. Þegar hún vaknaði á morgnana þá fann hún vel hvað garnirnar gauluðu hátt í maganum hennar (gerum hljóð saman). Hún umlaði með sjálfri sér „ég er svoooo svöng, ég er svoooo svöng“.

Hún átti ekki til matarbita og hún var sólgin í að borða óþekk börn. En það var bara svo erfitt að finna óþekk börn!

Á hverjum degi settist hún fyrir framan hellisopið. Skimaði með augunum, hlustaði með eyrunum og fann lykt með stóra nefinu sínu (gerum eins og Grýla).

Þegar hún heyrði öskur eða grát í börnum þá einbeitti hún sér að heyra vel hvaðan það kom af landinu. Var það á landshlutanum fyrir sunnan, vestan, norðan eða austan á Íslandi? Um leið og hún áttaði sig á því þá stökk hún af stað og tók stór skref því Grýla er svo stórstíg (tökum stór skref saman).

Kom þá niður að bátnum sínum sem var í fjörunni. Grýla var með mikla krafta í höndunum sínum og dró árabátinn út úr fjöruborðinu (drögum bátinn með Grýlu). Um leið og báturinn komst á flot þá hoppaði hún um borð, greip um árarnar og reri meðfram Íslandi (róum bát eins og Grýla) í áttina að hljóðinu í börnunum. Öðru hvoru lagði hún árarnar í bátinn, skimaði með augunum, hlustaði með eyrunum og fann lykt með nefinu sínu (gerum eins og Grýla). Stundum þurfti hún að fara allan hringinn í kringum Ísland.

Þegar hún nálgaðist barnagrátinn þá réri hún af enn meiri krafti (við líka). Þegar hún fann staðinn við Ísland þaðan sem gráturinn barst þá kom hún þar að landi (nefnum staðinn sem Grýla kom að landi og finnum hann á landakortinu). Flýtti sér af miklum krafti úr bátnum og hljóp á eftir börnunum sem urðu skelfingu lostin en oftast náðu þau að stinga hana af.

Með tíð og tíma urðu börnin á Íslandi svo góð. Grýla varð þá þreytt,svöng og slöpp. Að lokum dó hún í helli sínum sem enginn veit hvar er staðsettur.

Orðaforði og hugtök

  • Úrill
  • Garnirnar gauluðu
  • Umla
  • Sólgin í
  • Hellisop
  • Skima með augunum
  • Einbeita sér
  • Landshluti
  • Stórstíg
  • Árabátur
  • Fjöruborð
  • Komst á flot
  • Ár -- Árar
  • Róa
  • Skelfingu lostin
  • Stinga af
  • Staðsettur
  • Með tíð og tíma

Sjónrænt

  • Prentuðum út myndir með texta úr vísunni undir. Með því sjá nemendur fyrir sér vísuna. Förum með vísuna saman og þau geta líka gert sjálf.

  • Eigum grýluprik (fundum í skóginum tjágrein), grýlunef, grýlupoka og föt á Grýlu. Nemendur hafa skiptst á að leika hana.

  • Sýndum leikþátt á söngfundi fyrir allan nemendur leikskólans. Einn nemandi var Grýla, nokkrir voru bátuinn og aðrir voru börnin. Kennarinn las um vísuna og nemendur léku sín hlutverk.

Hreyfing og leikur

  • Handahreyfingar: Þegar við förum öll saman með vísuna þá taka nemendur þátt með því að róa með höndunum, setja hendur við eyru og hlusta, róa hraðar þegar Grýla flýtir sér að landi.

  • Þegar kennarinn les söguna þá taka nemendur þátt með hreyfingum/hljóðum líkt og sjá má hér að ofan innan sviga í sögunni.

  • Leikur: Skiptast á að fara með mismunandi hlutverk í vísunni. Grýlu, bátinn og börnin.

Samþætting - Lög

Fleiri lög og vísur um Grýlu:

  • Grýlukvæði eftir Jóhannes úr Kötlum
  • Ó Grýla eftir Ómar Ragnarsson
  • Grýla kallar á börnin sín

Umræðuna, sönglög og bækur má líka tengja við tröll og sögu þeirra þar sem Grýla er tröllkerling:

  • Hátt upp í fjöllunum þar búa tröllin.
  • Hérna koma nokkur risa tröll hó hó.
  • Bullutröll/af disknum Berrössuð á tánum: Anna Pálína og Aðalsteinn Ásberg.

Samþætting - Bækur

Þess má geta að Grýlu er fyrst getið í Snorra -- Eddu á 13. öld sem leiðir líkum að því að hún hafi komið með landnámsmönnum frá Noregi til Íslands.

Hugmyndir að bókum um Grýlu:

  • Jólin okkar: Brian Pilkington -- Jóhannes úr Kötlum.
  • Jólin koma/kvæði handa börnum: Jóhannes úr Kötlum.
  • Jólakarlar komnir á kreik -- Helgi Valgeirsson.
  • Grýlusaga -- Gunnar Karlsson.
  • Hringaló og Grýla -- Steinar Berg og Brian Pilkington.

Hugyndir að bókum um tröll:

  • Dynkur: Brian Pilkington.
  • Tröll: Brian Pilkington.
  • Tröll/grufl og góð ráð: Brian Pilkington.
  • Ástarsaga úr fjöllunum: Brian Pilkington.
  • Skilaboðaskjóðan: Þorvaldur Þorsteinsson.
  • Tár úr steini: Sveinbjörn I. Baldvinsson.
  • Tröllamatur: Berglind Sigursveinsdóttir.

Meira um hvernig lagið var notað

Við á kjarnanum Ásgarði á Gimli tókum fyrir kvæðið Grýla á sér lítinn bát. Þetta íslenska þjóðkvæði er eitt af þeim Grýlukvæðum sem er eftir óþekktan höfund. Grýlukvæði eru flokkuð með barnagælum en voru einkum notuð til að hrella/eða aga börn fyrr á öldum. En höfðu líka ákveðið skemmtanagildi. Þegar við ræðum við börnin um Grýlu, sögurnar af henni og kvæðin þá fylgir það alltaf með að hún er dáin því öll börn nú til dags eru svo prúð. Hér er myndræna útgáfan okkar af kvæðinu Grýla á sér lítinn bát sem við förum með saman. Við höfum líka prófað að leika kvæðið. Þá sátu nokkur börn á gólfinu og mynduð bát. Eitt barn var Grýla með poka á baki og hafði meðferðis prik sem er eins og á myndinni af Grýlu. Síðan voru börn sem léku börnin sem Grýla var að elta. Mjög skemmtilegt og gaman að sjá kvæðið lifna við með þessum hætti. Umræðurnar sem skapast í kringum kvæðið eru ekki síður skemmtilegar og þá ekki síst hvernig allt var öðruvísi í kringum jólahald í „gamla daga“. Það er líka mikil orðaforðakennsla út frá hverri og einni mynd. Til að mynda árabátur, árar, róa og æfa staðheiti með því að velta því fyrir sér hvar á Íslandi Grýla gæti komið að landi. Endalausar hugmyndir….

Síðast breytt
Síða stofnuð