Í skóginum stóð kofi einn

Textinn

Í skóginum stóð kofi einn, 
sat við glugga jólasveinn.
Þá kom lítið héraskinn 
sem vildi komast inn. 
„Jólasveinn, ég treysti á þig, 
veiðimaður skýtur mig.“ 
„Komdu litla héraskinn, 
því ég er vinur þinn.“

Veiðimaður kofann fann, 
og jólasveininn spurði hann: 
„Hefur þú séð héraskinn 
hlaupa‘ um hagann þinn?“ 
„Hér er ekkert héraskott, 
hafa skaltu þig á brott.“ 
Veiðimaður burtu gekk, 
og engan héra fékk.

Sagan

Úti í skógi var lítill kofi. Hver átti heima þar? Það var jólasveinn! (Hægt er að láta börnin velja hvaða jólasveinn það er, t.d. Stúfur) Honum leiddist og var að horfa út um gluggann til að sjá hvort eitthvað væri að gerast úti í skóginum. (Spyrjið börnin hvað hægt er að sjá úti í skógi).

Allt í einu sá jólasveinnin héra koma hlaupandi. Hann var greinilega mjög hræddur. Þegar hérinn sá kofann, kom hann strax nær og bankaði fast á hurðina. „Hjálp, jólasveinn! Opnaðu fyrir mér! Veiðimaðurinn ætlar að skjóta! Ég treysti á þig að hjálpa mér!“

Jólasveinnin flýtti sér að opna. „Auðvitað vil ég hjálpa,“ sagði hann. „Ég er vinur þinn!“ Hann fann mjög góðan felustað handa héranum inni í kofanum sínum. (Biðjið börnin um tillögur að hvaða felustaður það var).

Skömmu síðar kom veiðimaðurinn hlaupandi að og bankaði líka upp á. Hann var með haglabyssu í hendinni og greinilega mjög æstur. „Jólasveinn, hefurðu séð hérann? Ég er búinn að leita út um allt að honum! Mig langar svo mikið í hérasteik í jólamatinn. Ég sé það eru fótspor eftir hann hérna hjá kofanum þínum.“

Þó að jólasveinninn vissi nákvæmlega hvar hérinn væri að fela sig vildi hann náttúrulega alls ekki segja veiðimanninum frá því. „Hér er ekkert héraskott,“ sagði jólasveinninn. „Hann hefur örugglega bara hlaupið hérna fram hjá. Best að þú farir bara burt! Og mér finnst að þú ættir að hætta að skjóta dýrin í skóginum og fáir þér bara grjónagraut í jólamatinn í staðinn.“

Veiðimaðurinn gekk í burtu og hugsaði með sér að grjónagrautur væri kannski ágætis hugmynd. Honum var líka orðið kalt á tánum og hlakkaði til að komast heim í hlýjuna.

Saga eftir börn af Tjarnarseli

Einu sinni var jólasveinn sem hét Kertasníkir hann átti heima í kofa í skóginum hjá Grýlu. Honum langar að komast til héraskinns, þá kom veiðimaður sem vildi komast inn hann var við hliðina á kofanum hann var reiður að reyna að hoppa yfir grindverkið þá kom Grýla og hjálpaði honum að leita að héraskinni. Hann fór að labba um kofann þá var héraskinn farinn til jólasveinanna upp í fjalli. 🙂 Endir

Orðaforði og hugtök

  • kofi
  • héri (héraskinn, héraskott)
  • hver er munurinn á héra og kanínu?
  • veiðimaður
  • haglabyssa
  • skjóta
  • æstur
  • að treysta á einhvern
  • hagi
  • að hafa sig á brott
  • vinátta

Sjónrænt

Það er mjög auðvelt að gera lítinn leikþátt úr laginu og sýna börnunum söguna með dóti eins og því sem sést á myndinni.

Sýnið með látbragði tilfinningar hérans (hræðsla) og veiðimannsins (pirringur) og þegar jólasveinninn er að plata veiðimanninn er hægt að setja fingur fyrir varir til að gefa til kynna að börnin megi ekki kjafta frá heldur halda leyndarmálið.

Hreyfing og leikur

Handahreyfingar

Það fylgja nokkuð hefðbundnar handahreyfingar laginu: tákn fyrir kofann o.s.frv., sem flestir þekkja og sem börnin læra fljótt að herma eftir.

Að fara í hlutverk

Þrjú börn í einu geta leikið hlutverkin á meðan lagið er sungið. Það er gaman ef við erum með einhver auðkenni sem barnið fær, t.d. jólasveinahúfu, héraeyru og einhvers konar byssu. Einnig er sniðugt að nota tóman myndaramma fyrir glugga.

Ef börnin treysta sér til geta þau sungið einsöng þann hluta af laginu sem þeirra hlutverk segir til um. Líka er hægt að setja nöfnin þeirra inn í lagið, t.d. „Sat við gluggann Birta jólasveinn. Þá kom Baldur hérnaskinn...“

Samþætting

Bækur

Til er bókin Í skóginum stóð kofi einn eftir Jutta Bauer, en hún fjallar reyndar um þýska útgáfu lagsins þar sem það er hreindýr og ekki jólasveinn sem býr í kofanum.

Dýraspor

Í sögunni nefnir veiðimaðurinn spor eftir hérann kringum kofann. Í framhaldi af því er hægt að teikna upp og skoða mismunandi fótspor sem dýr geta skilið eftir sig og láta börnin giska á hvaða dýr eigi hvaða dýraspor.

Feluleikur úti

Eitt barnið fær héraeyrun og á að fela sig úti á leikvellinum. Hin börnin labba um saman og reyna að finna felustaðinn. E.t.v. aðlaga leikinn sem er á síðunni Elgur í feluleik.

Síðast breytt
Síða stofnuð