Jólasveinninn minn,
jólasveinninn minn
ætlar að koma í dag
Með poka af gjöfum
og segja sögur
og syngja jólalag
Það verður gaman
þegar hann kemur
þá svo hátíðlegt er
Jólasveinninn minn,
káti karlinn minn
kemur með jólin með sér
Jólasveinninn minn,
jólasveinninn minn
ætlar að koma í kvöld
Ofan af fjöllum
með ærslum og köllum
hann labbar um um holtin köld
Hann er svo góður
og blíður við börnin
bæði fátæk og rík
Enginn lendir í
jólakettinum
allir fá nýja flík
Jólasveinninn minn,
jólasveinninn minn
arkar um holtin köld
Af því að litla
jólabarnið
á afmæli í kvöld
Ró í hjarta,
frið og fögnuð
flestir öðlast þá
Jólasveinninn minn,
komdu karlinn minn
kætast þá börnin smá.
Það er kominn desember og jólasveinninn er að gera sig tilbúinn til að
fara til byggða. Hann tekur saman pokann sinn sem er stútfullur af
gjöfum fyrir börnin. Hann hlakkar svo til að hitta börnin á ýmsum
jólaskemmtunum í desember og gefa þeim glaðninga, syngja með þeim og
segja þeim sögur.
Jólasveinninn leggur af stað ofan af fjöllum og fer til byggða. Hann
syngur hátt á meðan og öskrar hóhóhó! Það er mjög kalt úti og labbar
hann um holt og hæðir til að komast til byggða. Þegar hann kemur til
byggða er mjög stórt verkefni framundan.
Hann labbar á milli allra húsanna og gefur öllum börnunum í skóinn. Á
meðan situr jólakötturinn heima í hellinum í fýlu því hann fær ekkert
nema kattarmat.
Jólasveinninn kemur að húsi og fer inn um gluggann. Þar, sér til
mikillar undrunar, sér hann að litla stelpan sem á þetta herbergi er
vakandi. Hún segist ekki geta sofið og biður jólasveininn að segja sér
sögu. Hann segir henni söguna af jólabarninu sem á afmæli á jólunum.
Litla stelpan sofnar róleg, friðsæl og glöð. Jólasveinninn er ánægður
með þessa jólanótt og hlakkar til þegar börnin vakna og gleðjast í
fyrramálið.
Orðaforði og hugtök
Ærsl = Mikil gleði með látum
Flík = Föt
Arka = Labba hratt/ákveðið
Holt = Lítið fjall
Fögnuður = Mikil gleði
Kætast = Gleðjast
Sjónrænt
Plaköt sem sýna lagið á sjónrænan hátt og
auðvelda að útskýra lagið fyrir börnunum.
Hægt að vera með leikmuni eins og poka með gjöfum, jólakött,
jólasvein, holt og hæðir, jesúbarnið.
Hreyfing og leikur
Hægt að búa til holt, hæðir og hellinn sem jólasveinarnir búa í úr
holukubbum. Þar er hægt að leika jólaköttinn, jólasveininn og fleiri
úr grýluhelli.
Hægt að vera með hreyfileik ef búið er til holt og hæðir úr
holukubbum, eins og einskonar þrautabraut.
Gjafapokaleikur: Eitt barn er jólasveinninn með pokann sinn og ofan
í eru „gjafirnar“. Jólasveinninn sýnir börnunum hvað er í pokanum og
svo snúa allir sér við á meðan jólasveinninn stingur einum hlut
aftur ofan í pokann. Hinir eiga að giska á hvaða hlut vantar. Hægt
að gera þyngra með að taka fleiri hluti heldur en einn.
Samþætting
Jólasveinar einn og átta er hægt að tengja við lagið þar sem það fjallar
líka um jólasveinana að koma til byggða. Einnig hægt að tengja lagið um
jólaköttinn ef börnin vilja vita meira um hann eftir að hafa sungið
þetta lag.
Ýmsar bækur um jólasveinana:
Bergljót Arnalds: Jólasveinasaga
Iðunn Steinsdóttir og Búi Kristjánsson: Jólasveinarnir