Skín í rauðar skotthúfur

Frá Tjarnarseli

Textinn

Skín í rauðar skotthúfur
skuggalangan daginn,
jólasveinar sækja að
sjást um allan bæinn.
Ljúf í geði leika sér
lítil börn í desember,
inn í frið' og ró, út´í frost og snjó
því að brátt koma björtu jólin,
bráðum koma jólin.

Uppi á lofti, inni í skáp
eru jólapakkar,
titra öll af tilhlökkun
tindilfættir krakkar.
Komi jólakötturinn
kemst hann ekki´ í bæinn inn,
inn' í frið og ró, út´ í frost og snjó,
því að brátt koma björtu jólin,
bráðum koma jólin.

Stjörnur tindra stillt og rótt,
stafa geislum björtum.
Norðurljósin loga skær
leika á himni svörtum.
Jólahátíð höldum vér
hýr og glöð í desember
þó að feyki snjó þá í friði og ró
við höldum heilög jólin
heilög blessuð jólin.

Lag: Franskt þjóðlag
Texti: Friðrik Guðni Þórleifsson

Sagan

Það var komin miður desember, skuggarnir voru orðnir langir og víða mátti sjá skína í rauðar skotthúfur um allan bæinn. Jólasveinarnir voru mættir í bæinn. Þetta var spennandi tími og börnin iðuðu af spenning og gleði, því brátt kæmu blessuð jólin. Börnin léku sér sæl og glöð úti í snjónum og leituðust við að kíkja eftir sveinka.

Alls staðar var fólk á hlaupum í innkaupum, það flýtti sér heim með það sem það hafði keypt. En ekki mátti láta pakkana liggja á glámbekk og því voru þeir settir í felur fram að jólum inn í skáp og upp á háaloft. Því það er ekkert gaman að vita fyrir jól hvað maður á von á í jólagjöf.

Það var erfitt fyrir börnin að sofna á kvöldin. Tilhlökkunin var mikil og spenningurinn magnaðist með degi hverjum. Því var það ósjaldan að tindilfættir fætur stálust til þess að læðast að glugganum og kíkja á stjörnurnar sem tindruðu og norðurljósin sem dönsuðu á himninum.

En loks rann aðfangadagur upp og jólahátíðin gekk í garð. Enginn fór í jólaköttinn því allir fengu eitthvað nýtt til þess að vera í á jólunum. Allir fengu góðan jólamat og góðar gjafir. En mesta gleðin við jólin var þó að allir voru saman og gerðu skemmtilega hluti saman. Það er hin sanna jólagleði.

Orðaforði og hugtök

  • Að skína í = sjást í
  • Skotthúfa = löng húfa sem mjókkar niður
  • Ljúf í geði = í góðu skapi
  • Tindilfættur = að vera fótafimur-fótfrár
  • Tilhlökkun = að hlakka til
  • Að tindra = að skína í, lýsa
  • Vér = við
  • Feyki = fjúka / blása

Sjónrænt

  • Renningar sem segja lagið myndrænt. Hér er PDF-skjal með myndum fyrir renninga.
  • Sögupoki, það er hinu ýmsu hlutir sem styðja við lagið/ söguna settir í poka. Í pokanum er til dæmis: stjarna, norðurljós, jólasveinahúfa, jólaköttur, jólapakkar, jólatré og litlar brúður.

Myndrenningur

Hægt er að setja fígúrur ofan á myndirnar á renningnum

Hreyfing og leikur

Skottaleikur/ skotthúfuleikur

Leikið er á afmörkuðu svæði. Allir þátttakendur fá rautt skott sem fest eru í buxnastreng. Markmið leiksins er að reyna að ná sem flestum skottum, það er stela skotti af öðrum þátttakendum. Missi þátttakandi skottið sitt heldur hann áfram í leiknum og reynir að ná nýju skotti. Ef þátttakandi hefur fleiri en eitt skott heldur hann umframskottunum í hendi sér. Þegar leikurinn er stöðvaður er talið hvað hver þátttakandi náði mörgum skottum.

Einnig er hægt að hafa tvö lið: jólasveinar með rauð skott og jólakettir með svört skott. Það lið vinnur sem nær sem flestum skottum af andstæðingunum.

Markmið: að byggja upp þol.

Að fela jólapakka

Fjöldi þátttakenda: 2+ (unnið í pörum).

Gögn: Einn jólapakki.

Leikreglur: Annar þátttakandinn velur hlut til þess að fela en sýnir hinum fyrst. Á meðan hann finnur stað fyrir hlutinn bregður hinn sér frá. Þegar búið er að koma hlutnum fyrir fær hinn aðilinn að koma inn og leita að hlutnum. Hluturinn er fugl ef hann er falinn hátt uppi, maður ef hann er í augnhæð og fiskur ef hann er lágt niðri. Sá sem faldi hlutinn má gefa vísbendingar um hversu nálægt hlutnum hann sé með því að segja að hann sé heitur eða kaldur (heitur eftir því sem nær dregur en kólnar eftir því sem fjær dregur).

Markmið: Að þjálfa staðsetningarhugtök.

Samþætting

Lagið: Jólasveinn taktu húfuna af þér (texti: Ómar Ragnarsson).
Lagið má finna á Spotify, bæði í flutningi Ómars og í útgáfu Vilhelms Antons Jónssonar.

Hafið þið séð hann Stekkjastaur,
Strákgreyið, hann er mesti gaur.
En hann er svo mikið hrekkjusvín,
Að hann ætti bara að skammast sín.

Jólasveinn, taktu í húfuna á þér
Jólasveinn, hún er snúin á þér.
Jólasveinn, lagaðu skúfinn á þér.
Jólasveinn

Hafið þið Gluggagægir séð,
gráa og síða skeggið með
glápir hann alla glugga á,
gott ef hann ekki brýtur þá.

(Viðlag)

Sjáið þið garminn Gáttaþef,
grípa fyrir sitt stóra nef
honum finnst hann sé falinn þá
ferlega er hann galinn sá.

(Viðlag)

Kertasníki má kenna um það
ef komast bílar ekki af stað
með skiptilykli skýst hann um
og skrúfar kertin úr bílnum.

(Viðlag)

Hafið þið séð hann Giljagaur
glápandi upp á ljósastaur
hann heldur í raun og verunni að
hann geti kveikt á perunni.

(Viðlag)

Kaupmenn hræðast Kjötkrók því
kjörbúðir hann læðist í,
krækir þar í kjötlærin
svo kjötlaus verður miðbærinn.

(Viðlag)

Þrettán bræður eru í allt,
sem ykkur hitta og syngja snjallt,
álíka skrýtinn er sérhver sveinn
þið syngið fyrir þá hvern og einn.

Jólasveinn, taktu í húfuna á þér
Jólasveinn, hún er snúin á þér.
Jólasveinn, lagaðu skúfinn á þér.
Jólasveinn
Síðast breytt
Síða stofnuð