Þorraþræll (Nú er frost á Fróni)

Frá Heiðarseli

Texti

Nú er frost á Fróni,
frýs í æðum blóð,
kveður kuldaljóð
Kári í jötunmóð.
Yfir laxalóni
liggur klakaþil,
hlær við hríðarbyl
hamragil.

Mararbára blá
brotnar þung og há
unnarsteinum á,
yggld og grett á brá.
Yfir aflatjóni
æðrast skipstjórinn,
harmar hlutinn sinn
hásetinn.

Lag: Þjóðlag
Texti: Kristján Jónsson fjallaskáld

Sagan

Á Íslandi (Fróni) er vetur. Það er kalt úti og frost. Kuldaboli (vindurinn, Kári) blæs svo köldu lofti á okkur (kveður kuldaljóð) að æðarnar í okkur eru við það að frjósa.

Yfir litla vatninu okkar þar sem allir fiskarnir okkar búa, sérstaklega fallegir og bleikir laxar, er frosin klakaþil. Eins og skautasvell sem við getum skautað á. En við getum öll verið róleg, því við vitum að allir fiskarnir okkar synda þarna undir og lifa góðu lífi á meðan Kári hlær af þessu öllu saman, hahahahahaha.

Fyrir ofan litla vatnið okkar er Hamragil, stór og mikill klettaveggur sem teygir sig langt til hægri og langt til vinstri. Það er byrjað að snjóa og Kári blæs og blæs áfram eins mikið og hann getur á stóra klettavegginn okkar, hann hlær og hlær, og úr verður svo mikil snjókoma og svo mikill vindur, sem kallast hríðarbyl (hríðarbil), að það sést ekkert í Hamragil.

Vinstra megin við Laxalón, undir Hamragili, er sjórinn. Þar eru stórir steinar í fjörunni. Þeir eru svo háir og breiðir að við þurfum að klifra upp á þá. Í þessu vonskuveðri sem Kári kuldaboli er að stjórna með því að blása og blása eins fast og hann getur þá verður sjórinn í kringum Hamragil úfinn, blár og hvítur, og til verða stórar öldur sem ná hátt upp í loftið (mararbára blá) og lenda með þungum og háværum skellum á alla steinana (brotnar þung og há unnarsteinum á). Það er næstum eins og aldan sé með reiðissvip, yggld og grett á brá.

Úti á hafinu (sjónum, marinum) siglir skipstjóri bátnum sínum og allir hásetarnir (sjómenn í áhöfn báts) reyna að veiða fiska í sjónum. En það er mjög erfitt og hættulegt í þessu vonskuveðri að reyna að veiða fisk. Þess vegna þarf skipstjórinn að gefast upp, snúa bátnum við og sigla aftur í höfn. Þegar skipstjórinn og hásetarnir koma tilbaka þá verða þeir svoooo leiðir af því þeir gátu ekki veitt neinn fisk til þess að fara með í búðirnar og selja (yfir aflatjóni æðrast skipstjórinn harmar hlutinn sinn hásetinn).

Orðaforði og hugtök

  • Fróni
  • Kuldaboli
  • Kári
  • Kveða ljóð
  • Æðar
  • Frost - frjósa
  • Klakaþil
  • Hamragil – hamrar – klettaveggur
  • Undir – fyrir ofan
  • Hægri – vinstri
  • Hríðarbylur – bylur
  • Fleiri orð um veður: Vonskuveður – snjókoma – él
  • Úfinn – sléttur
  • Alda – bára – unnur
  • Mar – sjór – haf
  • Yggld og grett á brá
  • Skipstjóri
  • Háseti
  • Áhöfn
  • Aflatjón
  • Æðrast
  • Harma sinn hlut

Myndrænt/sjónrænt

Sjá þessar myndir (PDF) sem voru notaðar til þess að útskýra lagið og hjálpa til við að læra textann.

Hreyfing og leikur

Ein hugmynd er að leika söguna. Börnin skiptast á að fara í hlutverk Kára og leika veðurofsann.

Börnin búa til sviðsmynd. Með Laxarlóni og Hamragili. Börnin geta búið til fiska í listakrók sem synda í lóninu. Nota efnivið og húsgögn til þess að búa til Hamragil.

Börnin skipta með sér hlutverkum í áhöfn. Útbúa skip með einingakubbum eða holkubbum. Búa til veiðistöng og veiða fiskana, t.d. nota franskan rennilás; á krókinn og fiskinn til þess að geta veitt.

Tilvalið að vera úti og nota jafnvel bát sem er á skólalóðinni, ef leikskólinn býr svo vel að hafa slíkan. Ef ekki, þá má nota sandkassann eða annað svæði sem hentar sem bátur. Leika sjómenn og einn er skipstjórinn. Veiða fiska sem gætu verið steinar. Safna þeim saman í net, mætti nota sigti úr sandkassa eða taupoka sem búið er að klippa á göt. Jafnvel útvega sér efni í líkingu við net.

Hér er það hugmyndaflugið sem ræður. Heilmikið hægt að gera.

Leikur sem tengir inn á þetta og mætti útfæra í tengslum við orðaforðann: http://leikuradordum.weebly.com/sjoacuter-land-og-loft.html

Samþætting

Taka til bækur, tímarit og myndir af náttúru Íslands, vötnum, sjó, fjörum, skipum, bátum og fólki við störf í fiskiðnaðinum.

Tengja við veðurfræðinginn, veðrið og skoða veðurspá og tákn fyrir veðrið.

Syngja önnur lög eins og Haustvísa (erindi 2 og 3 tengja inn á orðaforðann), Bátasmiðurinn, Fiskalagið og fleiri lög sem tengjast orðaforðanum.

Tengja við vísuna Fagur fiskur í sjó.

Tengja við umræðu um tilfinningar, t.d. reiði og pirring, leiður, dapur, vonbrigði. Hér gæti Lítil bók um stórar tilfinningar komið að notum. Er Kári reiður? Hvaða vísbendingar eru í laginu sem segja okkur hvernig Kára líður? Hvernig haga öldurnar sér? Af hverju líður skipstjóranum og hásetanum ekki vel? Hvað gerðist? O.s.frv.

Síðast breytt
Síða stofnuð