Uppi á grænum hól

Frá Hjallatúni

Texti

Upp á grænum, grænum himinháum hól
sá ég hérahjónin ganga,
hann með trommu bom bom, bombo romm bomm bomm,
hún með fiðlu sér við vanga.

Þá læddist að þeim ljótur byssukarl
og miðaði í hvelli,
en hann hitti bara trommuna sem small
og þau hlupu' og héldu velli.

Sagan

Það er að koma vor, snjórinn er farinn og grasið er að grænka. Dýrin í skóginum erusvo glöð að þau koma úr hólum sínum til að fagna vorinu saman. Sum dýr taka upp hljóðfæri og spila tónlist, eins og hérahjónin, á meðan önnur dansa. Hérahjónin fara upp á græna hólinn með trommu og fiðlu en taka ekki eftir byssumanninum sem er að fylgjast með þeim. Hann læðist að þeim... miðar... skýtur en sem betur fer missir skotið mark! Skotið hittir trommuna, sem gefur frá sér hátt hljóð. Hérahjónin hrökkva í kút. Þau flýja burt eins hratt og þau geta og komast undan heil á húfi. Byssumaðurinn er miður sín, hann fer heim tómhentur.

Orðaforði og hugtök

  • Himinhár hóll
  • Hérahjón
  • Vangi: kinn
  • Hvellur: hátt og hvellt hljóð
  • Að smella: að gera snöggt hljóð

Hægt er að eiga samtal við börnin um skógardýr og veiðimenn. Hvaða dýr er hægt að veiða? Til hvers að veiða dýr? Finnst þeim gott að hérarnir sluppu?

Einnig er hægt að tala um hljóðfæri, hvaða fleiri hljóðfæri þekkja börnin?

Sjónrænt

Við bjuggum til leikmuni til að geta leikið lagið: kanínueyru, fiðla, tromma, byssa.

Auk þess erum við með hljóðfærakassa þannig að við getum notað fleiri hljóðfæri, og auka dýraleikmuni (bjarnaeyru, hreindýrahorn,...)

Við settum blómateppi yfir nokkra kubba í stofunni til að mynda hól.

Hreyfing og leikur

Tvö börn leika hérahjónin og labba um stofuna með trommuna og fiðluna. Eitt barn leikur byssumanninn, sem stendur í einu horni og læðist svo að hérahjónunum. Þegar hann skýtur, hlaupa hérahjónin og koma í skjól á mottuna. Byssumaðurinn er svekktur og fer burt, hérarnir fagna því.

Leikurinn er stuttur, það er hægt að endurtaka hann og leyfa fleiri börn að prófa. Einnig er hægt að bæta við fleiri hljóðfæri og fleiri skógardýr þannig að fleiri börn geta verið með í leiknum og myndað dýrahljómsveit.

Samþætting

Lagið er svipað og jólalagið „Í skóginum stóð kofi einn" en er meira sumarlegt enda er hóllinn grænn.

Lagið „Tíu indíanar í skóginum" fjallar líka um veiðiferð en aumingja björninn sleppur ekki í þessu lagi.

Lagið „Ljónafjölskylda" fjallar um ljónafjölskyldu sem er í veiðiferð og ræðst á sebrahest.

Í laginu „Við förum öll í ljónaleit" förum við sjálf að leita að ljónum til að veiða.

Síðast breytt
Síða stofnuð