Beinagrindaleikurinn hefur orðið mjög vinsæll í vetur og alltaf þegar ég er í útivist koma börn hlaupandi til mín og biðja um að fá að fara í hann. Í upphafi leiksins eru bara 2-3 beinagrindur. Þær vakna um miðnætti, hoppa upp úr gröfinni og byrja að klukka hin börnin og breyta þeim þannig í beinagrindur líka. Í lokin þegar allir eru búnir að breytast er haldinn beinagrindafundur. Við klöppum þrisvar í jörðina á meðan við segjum: „Beinagrind! Beinagrind! Beinagrind! PÚFF!“ Allir breytast aftur í krakka og leikurinn getur byrjað upp á nýtt.
Vísan hér fyrir neðan var reyndar ekki upphaflega hluti af leiknum. Ég bætti henni við seinna. Ég hef alltaf verið hrifin af því að tengja lag eða vísu við leik svipað og er gert í Hver er undir teppinu? og fannst það líka vera upplagt sem viðbót við þennan leik. Vísan hjálpar líka til við að draga úr hræðslunni við beinagrindur því að víð erum svolítið að stríða þeim og segja að þær hrjóti eins og gamlar kindur.
Beinagrindavísa
Bráðum kemur miðnætti, beinagrindur,
Byrjum í leiknum er klukkan verður tólf.
Hættið nú að hrjóta eins og gamlar kindur,
hoppið upp að elta' okkur um hólf og gólf.
KLUK-KAN ER AL-VEG AÐ VER-ÐA TÓLF:1 (stapp-stapp) 2 (stapp-stapp) 3 (stapp-stapp) 4 (stapp-stapp)
5 (stapp-stapp) 6 (stapp-stapp) 7 (stapp-stapp) 8 (stapp-stapp)
9 (stapp-stapp) 10 (stapp-stapp) 11 og 12!AAAaaahhhh!
Myndskeiðið er klippt saman úr mörgum leikstundum yfir nokkurra mánaða tímabil og sýnir vel hvernig börn á öllum aldri geta komið saman í leiknum - þau yngri læra af þeim eldri.
Lýsing á leiknum
Lokið þið augunum. Dragið djúpt andann - alveg niður í fætur - hægri fótinn, vinstri fótinn. Opnið augun og sjáið hvar við erum stödd.
Það er myrkur og drungalegt. Við erum úti. Það er fullt tungl og úlfarnir ýlfra í fjarska. Öðrum megin er hár, myrkvaður veggur. Hinum megin er líka hár, myrkvaður veggur. Hérna er veggur með stórri, ryðgaðri járnhurð. Lykillinn situr í skránni, en það er ekki hægt að snúa honum, svo að við komumst ekki út þá leiðina. Á fjórðu hliðina er hár kirkjuturn með klukku á.
Hvar haldið þið að við séum? - Í kirkjugarði.
En lítið nú upp á klukkuna. Hún er alveg að verða tólf. Hvað haldið þið að gerist næst? Beinagrindurnar rísa á fætur og reyna að ná ykkur. Þær ganga með stífar hendur og fætur og geta alls ekki hlaupið. Þær hreyfa sig um og segja „Bei-na-grind! Bei-na-grind!“
Á ég að segja ykkur hvað gerist ef þeir ná ykkur? Þær klukka ykkur og þá fallið þið til jarðar og rísið svo aftur upp sem beinagrindur og hjálpið til með að ná fleiri.
Hvernig haldið þið að leiknum ljúki? „Allir verða að beinagrindum!“
Já, og þá hittast allar beinagrindurnar í miðjunni og halda saman fund. Við klöppum þrisvar sinnum í jörðina á meðan við þyljum: „Beinagrind, beinagrind, beinagrind, PÚFF!“ og þá erum við öll lifandi aftur.
Nú skulum við byrja leikinn. Tvö börn (eða fleiri) eru beinagrindur og grúfa í miðjunni. Við hin höldumst í hendur og löbbum í hring, segjum vísuna og teljum slögin í kirkjuklukkunni þegar hún slær tólf. Þegar við komum upp að tólf snúum við okkur að beinagrindunum og öskrum eins hátt og við getum, og reynum svo að forða okkur...
Kostur við hreyfileiki
Ég fór einu sinni í námsferð til Danmerkur þar sem við heimsóttum meðal annars íþróttaleikskóla á Amager. Við hlustuðum þar á mjög áhugaverðan fyrirlestur um hversu mikilvæg hreyfing er fyrir þroska ungra barna. Leikskólastjórinn þar hafði látið gera könnun á hreyfingu barnanna þar sem hvert barn var með skrefateljara. Þar hafði margt athyglisvert komið í ljós, en eitt það athyglisverðasta fannst mér vera eftirfarandi:
Í fyrsta lagi: Þótt mörg börn hreyfi sig mikið í frjálsum leik, hreyfa þau sig ennþá meira í kennarastýrðum leikjum.
Í öðru lagi: Þau börn sem hreyfa sig lítið í frjálsum leik, hreyfa sig mikið í kennarastýrðum leikjum, og þessi börn sækjast reyndar meira eftir slíkum leikjum en þau börn sem fá næga hreyfingu utan þeirra.
Stuttu eftir heimkomu tók ég þátt í leikjanámskeiði þar sem tveir danskir íþróttakennarar kenndu okkur fullt af hreyfileikjum, meðal annars þennan Beinagrindaleik. Þar kom enn meiri hvatning til að taka upp fleiri stýrða hreyfileiki í leikskólastarfinu, enda lögðu þeir áherslu á að svona hópleikir hafa mikilvægu uppeldislegu hlutverki að gegna. Auk hollrar hreyfingar stuðla leikirnir að félagsþroska barnanna. Hlutverk kennarans í þessu samhengi er að taka frumkvæði að leikjunum, skipuleggja þá og sjá til þess að allir geti verið með á eigin forsendum, og að allir njóti sín.