Furðulegur draumur
Ó, mig dreymdi svo furðulegan draum í nótt.
Ég sat á bakinu á kisu sem að hljóp svo fljótt.
Kisa hvæsti: “Svona þyngsli eru af og frá!”
Og hún mjálmaði og fór því næst með þulu þá:
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist ég í strump!
Þar með vissi ég að kisa þessi göldrótt var.
Og við hlupum vítt og breitt og vorum hér og þar.
En það vildi til að tjörn ein varð á okkar leið.
Kisa hló bara og fór með þennan galdraseið:
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist hún í önd!
Þar ég lá á andarbakinu og brátt ég svaf
Öndin gleymdi sér eitt andatak og stakkst í kaf.
Ég datt í vatnið og ég æpti hátt: “Ó, bjargið mér!”
“Ekkert mál”, sagði öndin, “Ég skal hjálpa þér!”
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist ég í lax!
Og við syntum áfram saman, bæði fiskur og önd,
þangað til við komum loksins upp að tjarnarströnd.
Öndin rölti í land en ekki ég, því ég var lax
En hún bjargaði mér aftur er hún sagði strax:
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist ég í tröll!
Þú veist að tröll þau eru oftast vondu skapi í,
svo ég öskraði og trampaði með miklum gný.
Ég sagði, “passaðu þig bara, ég skal kremja þig!”
“Þú nær mér aldrei” sagði öndin þá og reigði sig.
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist hún í ref!
Tófan hljóp í burtu spöl og sagði “Góði minn!
Varstu búinn að gleyma því að ég er vinur þinn?
Við höfum ferðast nógu lengi hér um draumageim.
Nú er tími til þess kominn að þú farir heim!”
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist ég í dreng!
- og svo lá ég undir sæng!
Lag: "En mærkelig drøm" eftir Kai Rosenberg / Kamma Laurents
Þýð.: Baldur A. Kristinsson og Birte Harksen