Furðulegur draumur

Ég hef hlakkað til að sýna ykkur þetta lag sem við í fjölskyldunni höfum hjálpast að við að fá í þennan búning. Þetta er lag úr bernsku minni í Danmörku sem Baldur, maðurinn minn, hefur hjálpað mér að þýða. Sonur okkar Bjarki gerði myndir sem ég nota þegar ég syng lagið með börnunum í leikskólanum.

Fyrra myndskeiðið er klippimynd þar sem Bjarki syngur með mér, og síðara myndskeiðið er stutt upptaka úr Urðarhóli þar sem sjá má hvers konar hreyfingar við gerum í viðlaginu ("Fjólublá fjólumús, fjólukrúsídús"). Neðst eru myndir sem hægt er að kalla fram í hárri upplausn og prenta ef einhver vill nota þær á sama hátt og ég þegar lagið er sungið.

Fyrra myndskeið

Furðulegur draumur

Ó, mig dreymdi svo furðulegan draum í nótt.
Ég sat á bakinu á kisu sem að hljóp svo fljótt.
Kisa hvæsti: “Svona þyngsli eru af og frá!”
Og hún mjálmaði og fór því næst með þulu þá:
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”  
- og svo breyttist ég í strump!

Þar með vissi ég að kisa þessi göldrótt var.
Og við hlupum vítt og breitt og vorum hér og þar.
En það vildi til að tjörn ein varð á okkar leið.
Kisa  hló bara og fór með þennan galdraseið:
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist hún í önd!

Þar ég lá á andarbakinu og brátt ég svaf
Öndin gleymdi sér eitt andatak og stakkst í  kaf.
Ég datt í vatnið og ég æpti hátt: “Ó, bjargið mér!”
“Ekkert mál”, sagði öndin, “Ég skal hjálpa þér!”
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist ég í lax!

Og við syntum áfram saman, bæði fiskur og önd,
þangað til við komum loksins upp að tjarnarströnd.
Öndin rölti í land en ekki ég, því ég var lax
En hún bjargaði mér aftur er hún sagði strax:
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist ég í tröll!

Þú veist að tröll  þau eru oftast vondu skapi í,
svo ég öskraði og trampaði með miklum gný.
Ég sagði, “passaðu þig bara, ég skal kremja þig!”
“Þú nær mér aldrei”  sagði öndin þá og reigði sig.
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist hún í ref!

Tófan  hljóp í burtu spöl og sagði “Góði minn!
Varstu búinn að gleyma því að ég er vinur þinn?
Við höfum ferðast  nógu lengi hér um draumageim.
Nú er tími til þess kominn að þú farir heim!”
“Fjólu-blá fjólu-mús, fjólu-krúsídús”
- og svo breyttist ég í dreng!
- og svo lá ég undir sæng!

Lag: "En mærkelig drøm" eftir Kai Rosenberg / Kamma Laurents
Þýð.: Baldur A. Kristinsson og Birte Harksen

Lagið með gítargripum

Síðara myndskeið

Myndir

Þessar myndir er hægt að kalla fram í hárri upplausn til útprentunar með því að smella á smámyndirnar hér að neðan.

Mynd 1

Mynd 2

Mynd 3

Mynd 4

Mynd 5

Mynd 6

Mynd 7

Síðast breytt
Síða stofnuð