Hefurðu séð kisuna mína?

Um daginn var ég í göngutúr með hóp krakka þegar við hittum konu sem var að leita að kisunni sinni. "Hafið þið séð gula kisu?" Það höfðum við ekki, en ég vissi strax hvaða bók við myndum lesa/syngja þegar við kæmum heim í leikskólann.

Þetta er dæmi um það hversu auðvelt er að tengja góða barnabók við tónlist með því að syngja stef sem styður söguna og sem er endurtekið mörgum sinnum meðan hún er sögð.

Söguþráður

Lítill strákur hefur týnt kettinum sínum, og hann fer í ferðalag umhverfis hnöttinn til að finna hann. Á leiðinni hittir hann margt fólk og sér mörg falleg kattardýr, þar á meðal ljón, tígrisdýr og hlébarða. En aftur og aftur þarf hann að segja "Þetta er ekki kötturinn minn!" og halda leitinni áfram þar til hann loksins finnur kisuna sína - við svolítið óvæntar aðstæður...

Hefurðu séð kisuna mína?

Afsakið, hefurðu séð mína kisu?
hún fór burt að heiman 
og nú er hún týnd!

Já, ég kisuna sá.
Ég sá hana þarna.
Já farðu að gá!

Laglína: "Takk" eftir Hafdísi Huld Þrastardóttur og Alisdair Wright

P.S.: Stundum vel ég að syngja bara fyrri hlutann á hverri blaðsíðu og sleppi síðara erindinu.

Myndskeið

Á myndskeiðinu hér fyrir neðan sést smá svipmynd frá því þegar við lásum bókina á Urðarhóli í sambandi við tígrisdýraþema sem við vorum með.

Myndskeiðið er frá því í apríl 2010.

Bókin er auðvitað Have You Seen My Cat? eftir Eric Carle. Á þessari síðu eru ýmsar hugmyndir að því hvernig hægt er að nota bókina í leikskólum.

Síðast breytt
Síða stofnuð