Hvalurinn Sara

Lagið um hana Söru er að finna á gamalli plötu þar sem Burl Ives syngur barnalög (The Whale). Þessi plata hefur verið í uppáhaldi hjá mér (Imma) áratugum saman og er það mikið gleðiefni að leyfa fleirum að njóta hennar. Þegar höfum við þýtt fjögur lög af plötunni og hafa þau öll slegið í gegn. Sjáið myndskeiðið fyrir neðan sem var tekið upp við kópavog.

Ég settist niður með plötuna í leit að fiskalagi þar sem Sjávarhóll er með fiskaþema og þó að Sara sé ekki fiskur þýddi ég lagið okkur til gamans. Eitt það skemmtilega við að hafa þema er að það kemur iðulega á óvart. Í þetta sinn snerist það upp í vangaveltur um sjávarheim og mannheim, skilin þarna á milli og gagnkvæma forvitni. Við veltum fyrir okkur hvaða töfraheimar byggju í sjónum og varð hláturinn stór hluti af öllu saman. Inn í þetta smellpassaði Sara og verður hún trúlega alltaf góð vinkona Sjávarhóls.

Það skemmtilega við textann er að hann býður upp á auðveldar breytingar, það mætti t.d auðveldlega setja eitthvað annað í stað "og annað sem ég þori ekki að nefna" og einnig er mjög skemmtilegt að finna einhvern sem hægt er að hlamma sér á í lok lagsins eins og sést á myndskeiðinu. Þetta er lag sem tekur sig ekki hátíðlega svo það er um að gera að breyta og bæta og skemmta sér konunglega.

Hvalurinn Sara

Í Kópavogi þar hvalur bjó
Hún borðaði mikið og var ekki mjó
Hún borðaði svínasteik og rósavendi og ferðatöskur 
... líka baðker

Hún borðaði mikið en brosti sætt
og tennurnar skinu ó svo skært
og gómurinn og rifbeinin og annað
... sem ég þori ekki að nefna

Hún hét Sara og hún var sæt
en hún mátt' ekki ná í neitt sem var ætt
ekki hjúkrunarfræðinga, ekki slökviliðsmenn
eða hnetusúkkulaði
... eða kanilsnúða

Svo hvað skal gera við svona hval?
Maður hefur kannski ekkert val
nema hlamma sér á hattinn sinn, á tannburstan, ömmu
... eða ___________

Lag: Burl Ives
Þýð. Ingibjörg Ásdís Sveinsdóttir (Imma)

Myndskeið

Síðast breytt
Síða stofnuð