Með nokkrum einföldum leikmunum er hægt að snúa þessu lagi upp í skemmtilegan leik þar sem börnin fara í hlukverk og hver og einn syngur sínar línur.
Það er frábært að sjá hvað börnin eru til í að leika lagið, en líka hvað þau eru hugrökk að syngja. Kennarinn er auðvitað vakandi fyrir að sum börn vilja fá stuðning frá hópnum en mörg eru til í einsöng. Ég skil eiginlega ekki af hverju ég hef aldrei gert þetta svona áður, því að þessi hugmynd hefur heldur betur slegið í gegn á öllum þeim deildum sem ég hef farið á um þessi jól.
Í skóginum stóð kofi einn
Í skóginum stóð kofi einn,
sat við glugga jólasveinn.
Þá kom lítið héraskinn
sem vildi komast inn.
„Jólasveinn, ég treysti á þig,
veiðimaður skýtur mig.“
„Komdu litla héraskinn,
því ég er vinur þinn.“
veiðimaður kofann fann,
og jólasveininn spurði hann:
„Hefur þú séð héraskinn
hlaupa‘ um hagann þinn?“
„Hér er ekkert héraskott,
hafa skaltu þig á brott.“
Veiðimaður burtu gekk,
og engan héra fékk.
Danskt jólalag: "I en skov en hytte lå"
Íslensk þýðing: Hrefna Samúelsdóttir Tynes (1. erindi)
og Gylfi Garðarsson (2. erindi - en mun síðar en fyrra erindið, líklega um 1996).
Þegar við syngjum lagið sem hluta af leikþætti eins og lýst er hér að ofan, er gaman að bæta nöfnum barnanna inn í textann. T.d. "Sat við gluggann Birta jólasveinn", "Þá kom Baldur héraskinn" og "Bjarki veiðimaður skýtur mig". Ég tók líka eftir því að það hjálpaði mér til að muna hver væri búinn að fara í hlutverk. Mér finnst reyndar gott að draga miða svo að öll börnin fái jafnt tækifæri á að prófa.
Söngur og leikur barnanna
Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá smá brot úr leik barnahóps sem voru í innileik fyrir hádegi og báðu um að fá leikmunina lánaða: jólasveinahúfu, ramma fyrir glugga, héraeyru og vatnsbyssu. Þetta var blandaður hópur 4-5 ára barna og voru þau í leiknum í næstum þrjú korter þar sem allir vildu fá að prófa öll hlutverkin - líka það að vera upptökumaður. Þegar hin börnin komu inn úr útivist vildi leikhópurinn sýna þeim "leikritið" í samverustund.
Myndskeið
Birte- og Immustund
Hér er smá myndskeið þar sem við Imma leikum söguna í laginu.
Uppruni lagsins
Þegar ég flutti til Íslands fannst mér gaman að uppgötva að Íslendingar eru líka með þetta jólalag sem ég þekkti úr bernsku minni um jólasveininn sem bjargar héranum frá veiðimanninum (I en skov en hytte lå). En reyndar er lagið til líka á norsku (I en skog det lå et hus) og þýsku (In dem Wald da steht ein Haus), svo að ég hef ekki hugmynd hvaðan það er upphaflega.
Bókin som kom út hjá Forlaginu árið 2012 er greinilega upphaflega þýsk (eftir Jutta Bauer) þar sem það er dádýr í stað jólasveins sem situr við glugga í kofanum, eins og í þýska söngtextanum.