Jólasveinar einn og átta

Það var skemmtileg nýjung hjá okkur fyrir þessi jól að leika söguna um jólasveina einn og átta, og nú verður ekki aftur snúið – ég er viss um að börnin munu heimta að fá að leika söguna á hverju ári héðan af. Ég mæli eindregið með að prófa, það er virkilega gaman! Fyrir utan leikgleðina sem sést greinilega á myndumum hérna á síðunni þá finnst mér svo ánægjulegt þegar það tekst að finna áhrífaríkar leiðir til að vinna með skilning barnanna. Það var alveg greinilegt að fæst þeirra höfðu gert sér grein fyrir hvaða dramatísku atburðir eru í raun og veru í gangi í þessu sígilda jólalagi.

Jólasveinar einn átta

[D] Jólasveinar einn og átta
ofan kom úr fjöllu[A7]num.
Í fyrrakvöld þeir fóru að [D] hátta
fundu hann [A7] Jón á völlu[D]num.

Andrés stóð þar utan gátta
það átti að færa hann tröllunum.
En þá var hringt í Hólakirkju
öllum jólabjöllunum.

Lag: Percy Montrose (My darling Clementine)
Höfundur texta: óþekktur

Leikum lagið

Hlutverkin eru teiknuð á töfluna (Jólasveinar, Grýla, óþekkir krakkar) og börnin setja miða til að sýna hvaða hlutverk þau vilja leika. Kennarinn getur tekið að sér að vera eins konar sögumaður sem leiðir börnin í gegnum söguna. Eftir leikinn velja börnin sér aftur hlutverk og gott er að leika söguna að minnsti kost þrisvar sinnum svo að allir hafi kost á að fara í öll hlutverkin.

Jólasveinarnir eru hér á leið úr fjöllunum. Þeir stoppa og gefa dót í skóinn hjá þægu börnunum.

En Jón og Andrés eru óþekkir krakkar. Þeir ulla og kasta með snjóbolta.

Grýla kemur til að setja þá í pokann sinn. Hún er ánægð að finna loksins óþekka krakka.

En sem betur fer tekst okkur alltaf að bjárga strákunum tveimur af því að Grýla hatar hljóðið í jólabjöllunum. Hún sleppir pokanum undir eins og hleypur heim eins hratt og hún getur.

Börnin vilja leika söguna aftur og aftur og prófa að leika öll hlutverkin.

Grýlasaga

Grýlusaga eftir Gunnar Karlsson er bók sem passar mjög vel að nota sem undirbúning fyrir að leika lagið. Það er nefnilega greinilegt að fæst börn sem syngja þetta lag aftur og aftur í desember átta sig í rauninni á að það sé verið að tala um tvo stráka sem eiga á hættu að verða étnir af Grýlu.

Hólar í Hjaltadal

Annars var það ekki fyrr en mjög nýlega sem mér varð ljóst að það hljóti að vera átt við alveg tiltekna kirkju í textanum þegar Hólakirkja er nefnd, nefnilega hið forna biskupssetur að Hólum í Hjaltadal. Enda þarf líklega alveg sérstaklega helgan stað til að gefa kirkjuklukkunum nægilegan fælingarmátt á þessar myrku vættir sem jólasveinarnir voru taldir fyrr á öldum.

Hlutverk Grýlu og jólasveinanna

Ég ákvað að láta alla ógnina stafa af Grýlu fremur en af jólasveinunum í minni túlkun á textanum, líka svo að það væri meiri hreyfing á hennar hlutverki í sögunni. Meira að segja lékum við það þannig að jólasveinarnir hræddu mömmu sína með því að hringja kirkjuklukkunum og björguðu þannig strákunum tveimur. Líklega fundust þeim svona tröllasiðir gamaldags og hallærislegir.

Síðast breytt
Síða stofnuð