Þrettándi var Kertasníkir
Þrettándi var Kertasníkir,
- þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.
Hann elti litlu börnin,
sem brostu glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.
Jólasveinarnir eru þrettán eins og við vitum, en stundum er bara erfitt að muna röðina á þeim, ekki satt? Jóhannes úr Kötlum samdi frægt Jólasveinakvæði þar sem röðin festist í sessi og í mörgum leikskólum er kvæðið einmitt lesið fyrir börnin í desember þegar jólasveinarnir byrja að mæta einn á fætur öðrum. Í fyrra var ég svo heppin að fá að vera viðstödd í samverustund þegar samkennari minn, Sigríður Einarsdóttir, fór í hlutverkið hans Kertasníkis, síðasta jólasveinsins, sem kemur til byggða á aðfangadag. Hún lék hlutverkið með miklum húmor og mikilli innlifun, og börnin voru alveg dásamleg. Ég náði yndislegu myndskeiði af þeim sem fær mann til að brosa.
Þrettándi var Kertasníkir,
- þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.
Hann elti litlu börnin,
sem brostu glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.
Ef þið viljið sjá allt kvæðið, þá langar mig að benda ykkur á þessa síðu þar sem leikskólinn Gimli sýnir fleiri leiðir til að vinna með vísurnar og leika innihaldið.
Ég var mjög hrifín af nálgun hennar Siggu við að kynna jólasveinana fyrir börnunum. Þessa leið býður upp á að eiga góða stund saman en um leið styðja við skilning og áhuga barnana á þessum erfiða texta.
Þó að Sigga segi að þetta séu oft hugdettur og spuni á staðnum og verði fyrir áhrifum frá viðbrögðum og uppástungum barnanna, þá segir hún líka að hún hugsi út í það fyrirfram hvaða einkenni hver jólasveinn hefur og hvernig best sé að fá þau fram - eins og hér þar sem hún kemur með lítil rafkerti sem börnin labba um með og sem Kertasníkir auðvitað ágirnist.
Á vefsíðunni Íslenskt almanak má finna töluvert efni um íslensku jólasveinana sem Bragi Halldórsson hefur tekið saman og sem gaman er að kynna sér. Meginsíðan um þá er hérna en á vefsvæðinu eru líka sérstakar síður um hvern jólasvein fyrir sig, m.a. Kertasníki.
Sláðu inn leitarorð hér að neðan.