Krummi krunkar úti

Þessi sígilda krummavísa er þjóðlag sem öll börn þekkja og elska. Hér á síðunni er hægt að sjá nokkur stutt myndskeið sem sýna hvernig hægt er að nota lagið í leikskólanum í mismunandi samhengi, t.d. bæði í útivist, listasmiðju og málörvun. Ennig er aukaerindi við lagið sem fjallar um hrafna Óðins sem hvísla leyndarmál í eyru hans.

Krummi krunkar úti

D
Krummi krunkar úti,
Em       A7    D
kallar á nafna sinn:
 D
"Ég fann höfuð af hrúti
Em         A7    D
hrygg og gæruskinn.
   D
:,:Komdu nú og kroppaðu með mér,
A7            D
krummi, nafni minn".:,:

Lag: Íslenskt þjóðlag
Lagið í útgáfu Skoppu og Skrítlu

Krummafjör í útivist

Handbrúðan gerði lukku í útivistinni einn daginn og tók sig vel út í skrautlega laupnum sem börnin höfðu saumað úr alls konar garni. Laupurinn var reyndar upphaflega töfrapúði en áklæðið passaði síðan fullkomlega í þetta hlutverk. Við tókum hátalara með okkur út og sungum og spiluðum mörg krummalög af Spotify.

Listasmiðja með krummum og klaka

Ingibjörg Ásdís Sveinsdóttir (Imma) sýnir hér sniðuga notkun á Krummavísunni í sambandi við rannsóknarlistasmiðju. Börnin eru að kanna samspil klaka, ljóss og lita og þannig myndast sérstök stemmning sem bara verður sterkari við það að tengja klakann við krumma sem leitar að mat í vetrarkuldanum.

Málörvun og innlifun

Það er alltaf dásamlegt að sjá börnin fara í hlutverkin í laginu, kannski sérstaklega hlutverk hrútsins sem er étinn, enda krefst það ákveðins hugrekkis. Hrúturinn er með gæruskinn á bakinu, hryggbein á bandi og tvö horn á meðan börn með krummagrímur fljúga í kring og setjast svo niður og kroppa í hann af mikilli lyst og innlifun. Þegar ég gerði þetta svona í fyrsti skipti áttaði ég mig á því að flest börn höfðu aldrei hugsað út í hvað í raun var að gerast í laginu - fyrir utan krunkið, auðvitað :)

Í laginu eru ýmis orð sem við verðum að fara aðeins í dýptina með svo að börnin skilji betur hvað er um að vera: Höfuð af hrúti, hryggur, gæruskinn, kroppa, nafnar. Einu sinni þegar ég var að segja börnunum söguna á bak við lagið og lék það með leikmunum þá nefndi ég að mig vantaði hryggbeinin. Viku seinna kom starfssystir mín, Sigrún Unnur Einarsdóttir með fallega gjöf til mín. Hún hafði nefnilega borðað lambahrygg um helgina og tók að sjálfsögðu frá beinin handa mér :)

Gamalt myndskeið

Þetta myndskeiðið var tekið upp á Heilsuleikskólanum Urðarhóli árið 2010, þegar ég fór fyrst að vinna markvisst og meðvitað með þátttöku barnanna með það að leiðarljósi að auka skilning þeirra og upplifun.

Hrafnarnir hans Óðins

Til er aukavísa við laglínuna sem ég lærði á úkúlele-námskeiði hjá Berglindi Björgúlfsdóttur. Vísuna er að finna í bókinni Söngvasafn. Þessi viðbót er ekki hluti af upphaflega þjóðlaginu en getur samt passað vel inn í hrafnaþema í leikskólanum.

Hér er auðvitað verið að vísa í Hugin og Munin, hrafna Óðins í norrænni goðafræði. Þeir flugu víða og sögðu honum fréttir hvaðanæva úr heiminum, svo að Óðinn vissi alltaf upp á hár, hvað væri að gerast. Hér er Pdf-skjal til útprentunar.

Flettibók á netinu

Hér er skemmtileg og fróðleg bók um hrafninn eftir Hörpu Jónsdóttur. Hún er ætluð fyrir yngsta stig grunnskóla en er líka gaman að lesa með leiksólabörnum. Þetta er rafbók á netinu og hluti af bókaröðinni Milli himins og jarðar sem útgefin er af Miðstöð Menntunar og Skólaþjónustu (MMS). Bókin er ennig til sem hljóðbók.

Síðast breytt
Síða stofnuð