Makey Makey

Að breyta grænmeti og ávöxtum í píanó er eiginlega alveg jafn skemmtilegt og það hljómar. Mig hefur alltaf langað að prófa að nota Makey Makey í leikskólanum og varð glöð þegar ég komst að því að samstarfsmaður minn Hafþór H. Einarsson ætti sett og væri tilbúinn til að leyfa mér og börnunum að prófa okkur áfram með það.

Hafþór setti stöðina upp þannig að börnin gætu fyrst sjálf rannsakað hvað hægt væri að nota sem rafleiðara og þannig mynda hljóð með tækinu þegar það er tengt við tölvu eða iPad (og gegnum þessa vefsíðu sem er á vefsvæði Makey Makey).

Börnunum fannst skemmtilegt að nota óvænta hluti. Þau komust að ýmsu áhugaverðu eins og það sé hægt að spila með því að setja fingur í vatnsglas en hins vegar var ekki hægt að spila á Crocs-skó, og olli það svolitlum vonbrigðum.

Í framhaldinu langaði mig til að börnin einblíndu meira á tónlistarhliðina og tækju betur eftir hvaða tóna þau væru að "búa til" svo að þau fengju á tilfinninguna að það væri hægt að búa til tónlist eða jafnvel spila laglínu á þennan hátt.

Ákveðið var að búa til ávaxta- og grænmetispíanó. Í því samhengi prentaði ég út myndir af grænmeti og ávöxtum sem börnin pöruðu saman við litina á nótnaborðinu á skjánum. Hér er pdf-skjal til útprentunar með myndunum sem ég notaði.

Myndskeið

Makey Makey

Makey Makey settið samanstendur af rásaspjaldi, sjö snúrum með krókódílaklemmum og USB-tengi til að tengja við tölvu, iPad eða síma. (Athugið að það þarf millistykki til að breyta úr USB-A í USB-C eða Ligthning-tengi þegar iPad er notaður).

Neðsta tengið á rásaspjaldinu er fyrir jarðtengingu þannig að eina krókódílaklemmuna þarf að tengja við einhvern málmhlut. Í myndskeiðinu sést bæði þegar við notum málmmál og armband úr álpappír í því samhengi. Kosturinn við það síðarnefnda er að börnin eru alltaf jarðtengd og geta því notað báðar hendur til að spila. Hin tengin er hægt að tengja við nánast hvað sem er, svo lengi sem það leiðir rafmagn. Hér er hægt að kaupa Makey Makey.

Myndir

Gott ráð að lokum

Ég komst að því undir lok verkefnisins að ég hefði getað komist hjá því að þurfa að þrífa ávaxtamauk af krókódílaklemmunum með því að nota bréfaklemmur sem millilið eins og sést á myndinni hér að neðan.

Síðast breytt
Síða stofnuð