Óvæntur spuni
Hér má sjá tvö stutt dæmi um óvæntan spuna sem getur átt sér stað hvar sem er og hvenær sem er. Svona spunastundir eru sjaldnast langvinnar en eru mjög ánægjulegar engu að síður. Það er mikilvægt að grípa tækifærið þegar það gefst og hvetja börnin til að prófa sig áfram og kanna hljóð og ritma sem verða til alveg óvænt.
Hjólbörutrommur
Fyrra dæmið gerðist í útivistartíma í sumar þegar vinnustrákar úr bæjarvinnunni komu til að skipta um sandinn í sandkassanum hjá okkur. Þetta tók nokkra daga og þeir voru sífellt að fara fram og til baka með hjólbörur. Nema auðvitað þegar þeir voru í pásu.
Við gripum tækifærið þegar vinnustrákarnir voru ekki á staðum til að nota hjólbörurnar sem trommur. Börnin voru á fullu þegar þeir komu til baka svo að þeir settust í grasið til að fylgjast með þeim. "Nú er komið að ykkur!" sagði ég síðan við þá og það gladdi mig mjög hvað þeir tóku áskoruninni vel. Ég fékk leyfi til að sýna upptökurnar hér á síðunni.
Rytmaleikur í snjónum
Síðara dæmið gerðist þegar við fórum í útinám í ævintýraskóginum í miklum snjó þar sem tveir strákar fundu skóflu og stóra grein. Þeir byrjuðu að slá þeim saman og gerðu það svo taktfast og flott að ég byrjaði ósjálfrátt að klappa rytma á lærin sem passaði við. Annar strákur kom og byrjaði að slá með grein í tré við hliðina á okkur og tvær stelpur stóðu og horfðu á. Allt í einu fengu þær skemmtilega hugmynd til að bæta við rytma.