Stafadansinn

Í Stafadansinum er hægt að velja hvaða fjögurra bókstafa orð sem er, t.d. „kisa“, eins og hér að neðan. Dýraheiti gefast vel, t.d. „ljón“, „fugl“, „lamb“, „geit“, „eðla“. Lagið æfir bæði hvernig bókstafirnir líta út, hvað þeir heita og hvernig þeir hljóma. Auk þess höfum við líka æft hvernig þeir eru gerðir með fingrunum á íslensku táknmáli..

Meðan lagið er sungið sitjum við í hring á gólfinu og bókstafirnir liggja dreifðir í miðjunni eða fyrir aftan okkur. Eftir hvert erindi sækja börnin þangað bókstafina sem var sungið um og mynda úr þeim orðið smátt og smátt. Mikilvægt er að sýna og æfa stafina fyrirfram svo að enginn verði óöruggur.

Gaman er að dansa síðan frjálst eins og viðkomandi dýr við tónlist sem passar við það. Við notuðum t.d. Pink Panther fyrir kisuna.

Stafadansinn

K, sérðu stafinn K?
K, sérðu stafinn K? 
K-K-K-K Sérðu stafinn K? 
Finndu núna K

I, sérðu stafinn I?
I, sérðu stafinn I? 
I-I-I-I Sérðu stafinn I? 
Finndu núna I

S, sérðu stafinn S?
S, sérðu stafinn S? 
S-S-S-S Sérðu stafinn S? 
Finndu núna S

A, sérðu stafinn A?
A, sérðu stafinn A? 
A-A-A-A Sérðu stafinn A? 
Finndu núna A

K-I-S-A
Ég sé kisur allstaðar!

Lag: Super Simple Songs
Texti: Birte, Þrúða og Sara

Tónlist með söng

Stafadansinn.m4a

Myndskeið

Lagið heitir "I see something blue" og er frá SuperSimpleSongs. Þar er líka hægt að kaupa útgáfu án söngs, þannig að maður getur búið til sinn eigin texta eins og hér. Sama lag er notað við Regnbogadansinn.

Þessi dans er hluti af þróunarverkefninu: "Að læra gegnum dans" sem við Geirþrúður Guðmundsdóttir og Ragnheiður Sara Grímsdóttir unnum með styrk frá Sprotasjóði á skólaárinu 2014-15. Við vorum mjög ánægðar með upptökurnar þar sem sést vel hvaða pælingar geta komið upp hjá börnunum þegar stafirnir raðast á gólfið fyrir framan þau.

Síðast breytt
Síða stofnuð