Vorið kemur - Vikivaki

Jóhanna Helgadóttir, Heiðarseli

„Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt“ syngja börnin, og hjartað var meginþemað á deildinni Bakka í Heilsuleikskólunum Heiðarseli skólaárið 2023-24. Það varð táknmynd deildarinnar fyrir Kærleiksríka nálgun – aðferð sem Jóhanna Helgadóttir, deildarstjóri, hefur þróað og mótað til að styrkja tilfinningalega vellíðan og og kærleikann í leikskólastarfinu dags daglega. Lagið Vikivaki var sungið í útskrift barnanna þar sem það endurspeglar vel þessa nálgun og tengir líka auðveldlega við hjartaþemað.

Vorið kemur – Vikivaki

[C]Sunnan yfir sæinn [Am]breiða
[C]sumarylinn vindar [Am]leiða
[Dm]draumalandið himin[G]heiða
[C]hlær og opnar skautið [Am]sitt.
[Dm]Vorið kemur, heimur [G]hlýnar,
hjartað [C]mitt.

Gakk þú út í græna lundinn,
gáðu fram á bláu sundin,
mundu’ að það er stutt hver stundin,
stopult jarðneskt yndið þitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar,
hjartað mitt.

[Dm]Aaa-A-A-[G]A
[C]Aa-A-A-A-[Am]A
[Dm]Vorið kemur, heimur [G]hlýnar,
hjartað [C]mitt.

Allt hið liðna er ljúft að geyma - 
láta sig í vöku dreyma. 
Sólskinsdögum síst má gleyma, 
segðu engum manni hitt! 
Vorið kemur, heimur hlýnar, 
hjartað mitt.

Aaa-A-A-A
Aa-A-A-A-A
Vorið kemur, heimur hlýnar,
hjartað mitt.

Gítarklemma á 3.
Lag: Valgeir Guðjónsson, 1985
Texti: Jóhannes úr Kötlum, 1926
Lagið á Spotify (Hafdís Huld)

Útskriftarhópur 2024

Myndskeiðið var tekið upp á útskriftinni þar sem börnin sungu fyrir foreldrana. Það var Ragnheiður Ragnarsdóttir leikskólaliði sem þekkti lagið Vikivaki og kynnti það fyrir öllum á Bakka. Börnin höfðu klippt út hjarta og sett á prik sem þau héldu á meðan þau sungu og sem síðan var stungið í blómapott ásamt græðlingi til að gróðursetja, sem þau fengu svo með sér heim í útskriftargjöf.

Sem hluti af samstarfi við nemanda og kennara í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar var það Elva María Elvarsdóttir píanónemi við skólann sem spilaði undir á útskriftarathöfninni.

Orðaforði og hugtök

Túlkun textans og umræðan um hann með börnunum tengdi inn á kærleika, samveru, núvitund og skynfæri (m.a. í tengslum við efni frá Hugarfrelsi sem notað er daglega á deildinni).

Sumarylur: Finna sólina verma sig, ímynda sér sólargeisla sem vermir líkamann frá toppi til táar. Vindur frá sjónum: Tenging við bókstafinn Vv í Lubbi finnur málbeinið, finna vindinn blása á sig í útiveru (ólík orð yfir vindur, ólíkir styrkleikar vinds). Við gefumst ekki upp þó á móti blási.

Draumalandið: Sorg varð umræðuefni á tímabili, í því samhengi kom tengingin við draumalandið og hversu stutt hver stund er og mikilvægið sem felst í því að njóta augnablikanna. Áhersla var á samveru við fjölskyldu og vini, eigin styrkleika og að standa með sjálfum sér.

Gakktu út í græna lundinn: Núvitund, að leggjast í grasið og skoða skýin. Fara í leiki í graslundi nálægt leikskólanum. Nota grasvöllinn í heimaskólanum til þess að spila fótbolta og skotbolta.

Vorið kemur, heimur hlýnar hjarta mitt: Tenging við vorið og allt sem tengist því, gróðurinn að vakna til lífsins og hitastigið hækkar. Tengdum við okkar eigið hjarta, líðan í hjartanu, þegar við erum elskuð (hlýrra veður á vorin) þá líður okkur betur (líkaminn hlýnar) og líka þegar við elskum aðra og gefum öðrum kærleika.

Það má því segja að lagið hafi orðið táknrænt fyrir margar sakir í þessu samhengi og gaf endalausa uppsprettu umræðna og samveru. Lagið er sungið með kærleika í hjarta til allra þeirra sem hlýða á það.

Hjartaföndur

Öll börnin á Bakka bjuggu til hjarta úr pappa og garni sem þau gáfu foreldrum sínum. Kennararnir aðstoðuðu við að klippa út hjartað og börnin sáu sjálf um að þræða garn upp á það ❤️ Ótrúlega skemmtilegt verkefni. Góð æfing fyrir fínhreyfingar og þolinmæði 🙂

Eins og áður sagði klipptu börnin einnig út einnig út hjarta sem límt var á prik og notað í útskriftinni.

Um starf Jóhönnu

Jóhanna Helgadóttir er deildarstjóri á Heilsuleikskólanum Heiðarseli í Reykjanesbæ. Hún hefur um árabil þróað áherslur í leikskólastarfinu sem hún kallar Kærleiksríka nálgun í leikskóla. Þar byggir hún m.a. á gagnreyndum aðferðum sem þróaðar voru af Bergdísi Wilson skólasálfræðingi undir heitinu kærleikstengsl. Þær hugmyndir liggja einnig til grundvallar Farsældarlaganna, en það eru ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Námið Farsæld barna – viðbótardiplóma á meistarastigi, sem kennt er við Háskóla Íslands, fór í loftið haustið 2022 með það að markmiði að styðja við innleiðingu laganna, og Jóhanna var meðal þeirra fyrstu sem luku því.

Jóhanna vann að þróunarverkefni í kringum þessar hugmyndir á árunum 2018-2021 undir yfirskriftinni „Fjölbreytt nálgun í nemendahópnum“ þar sem hún vann með ákveðna þætti sérstaklega til þess að ná fram eftirfarandi: • Skapa betri bekkjaranda. • Búa til rými fyrir hvern nemanda til að tilheyra bekkjarsamfélaginu. • Auka tilfinningalega vellíðan. • Byggja upp árangursrík samskipti. • Draga úr hegðunarvanda.

Vinnan í kringum hjartaþemað og þar með einnig lagið hér á síðunni tengist jafnframt þróunarverkefninu „Leikgleði gegnum sögur og söng“ sem leikskólar í Reykjanesbæ tóku þátt í á skólaárinu 2023-24 undir leiðsögn Birte Harksen og Ólafar Kristínar Guðmundsdóttur.

Hvers vegna heitir kvæðið Vikivaki?

Ég (Birte) undraðist yfir því hvers vegna textinn í þessu lagi hefur ekki neitt eitt heiti. Stundum er hann kallaður Vikivaki, stundum Vorið kemur og stundum Sunnan yfir sæinn breiða.

Þegar ég skoðaði málið komst ég að því að ljóðið er úr fyrstu ljóðabók Jóhannesar úr Kötlum (Bí bí og blaka, 1926) og hefur þar ekki titil eitt og sér. Hluti bókarinnar er nokkur ljóð sem bara eru aðgreind með tölusetningu og hafa sameiginlega titilinn „Vikivakar“. Sunnan yfir sæinn breiða er það fyrsta í röðinni í þessum bálki.

Á plötu Valgeirs Guðjónssonar, Fugl dagsins frá 1985, þar sem hann setti tónlist við ljóðið, fær það hins vegar titilinn „Vorið kemur: Vikivaki“.

Síðast breytt
Síða stofnuð