Teiknitúlkun

Bergrún Ísleifsdóttir

Bergrún Ísleifsdóttir, leikskólakennari á leikskólanum Álfaheiði, þróaði þessa frábæru og áhrifaríku aðferð árið 2014 til að vinna með skilning barnanna á söngtexta. Hún kallar aðferðina "teiknitúlkun". Eins og orðið bendir til teikna börnin myndir til að túlka söngtextann, en jafnframt felst aðferðin í ákveðnu samskiptaferli í sambandi við þá vinnu.

Teiknitúlkun á Maístjörnunni

Þessu samskiptaferli má skipta í þrjá meginþætti:

  1. Skilningur textans

    • Hvað þýða orðin?
    • Hvað þýðir setningin?
    • Allar tillögur frá börnunum velkomnar og viðurkenndar
  2. Hugmyndir að teiknitúlkun

    • Hvernig getum við teiknað þessa setningu?
    • Allar tillögur velkomnar og viðurkenndar
    • Sameiginleg ákvörðun tekin um hvað á að teikna
  3. Að teikna og syngja
    • Hver vill teikna það sem var ákveðið?
    • Hvernig ætlar þú að teikna það?
    • Einn teiknar og hinir syngja á meðan

Bergrún útskýrir hugmyndina í aðferðinni á eftirfarandi hátt:

Með aðferðinni fá börnin tækifæri til að tjá hugmyndir sínar og koma hugsunum sínum í orð og myndir. Þar með gefst kennaranum tækifæri til að skyggnast inn í hugarheim barnanna og auka skilning sinn á því hvernig börn hugsa.
Börnin fá tækifæri til að taka þátt í skapandi ferli, gleðjast yfir eigin sköpunarkrafti, skilja textann eða orðin sem þau syngja og tjá upplifun sína í gegnum myndsköpun. Barnið fær einnig tækifæri til að eiga jákvæð og uppbyggileg samskipti, deila skoðunum sínum og hugmyndum og öðlast skilning á rituðu máli. Reynslan sýnir að eftir að aðferðinni hefur verið beitt á ákveðinn söngtexta kunna börnin textann vel og skilja hann betur. Einnig örvar þessi vinna þau til að spyrja hvað orðin merkja í öðrum söngtextum og sögum.

Hér er barn að teikna, hinir syngja og fylgjast grannt með.

Síðast breytt
Síða stofnuð