Þegar við vorum að byrja á skrímslaþemanu okkar á deildinni datt mér í hug að það væri lítið mál að breyta þessu þekkta lagi í skrímslalag. Hugmyndin að leiknum kom svo í framhaldi og þegar við vorum að leika hann í fyrsta skipti áttaði ég mig allt í einu á að það væri upplagt at nota það líka sem stærðfræðilag í leiðinni. Svona þróast hlutirnir og það er svo gaman :)
Áður en leikurinn hefst er búið að velja út 10 börn í hópnum sem fela skrímsli hjá sér. Lagið er síðan sungið og kennari (eða barn) kemur inn og byrjar að leita. Í hvert skipti sem skrímsli er fundið er farið vel yfir stæðfræðidæmið. Ef Tómas er t.d. búinn að finna sex skrímsli þá á hann eftir að finna fjögur skrímsli af því að 6 + 4 = 10.
Eitt og tvö og þrjú lítil skrímsli
fjögur og fimm og sex lítil skrímsli
sjö og átta lítil og níu lítil skrímsli
tíu lítil skrímsli í feluleik.
Þau eru öll með klær og tennur.
Þau eru öll með klær og tennur.
Skrímslaaugu og nef sem rennur.
Þau ætla að hræða TÓMAS!
En TÓMAS er ekki hræddur við neitt!
Hann er alls ekki hræddur við neitt!
Hann telur upp að tíu og brosir breitt
og síðan byrjar hann að leita.
(...)
Síðan er hægt að syngja um fjöldann í hvert skipti sem skrímsli finnst til að leggja meiri áherslu á stærðfræðina. Ég hef notað þessar tvær útgáfur en svo er auðvitað líka hægt að tala bara um reiknidæmin og sleppa söngnum:
(A)
TÓMAS er búinn að finna tvö skrímsli
TÓMAS er búinn að finna tvö skrímsli
Ennþá á hann eftir að finna átta skrímsli
því að 2 plús 8 eru 10.
(B)
Þriðja litla skrímslið faldi sig hjá ____________.
Þriðja litla skrímslið faldi sig hjá ____________.
En ennþá eru eftir sjö lítil skrímsli
því að 3 plús 7 eru 10.
Lag: Tíu indjánar í skóginum
Texti: Birte Harksen
Myndskeið
Í þessu broti úr Birte- og Immustund er lagið tekið á einfaldari hátt þar sem við sleppum feluleiknum og stærðfræðiæfingunum en syngjum hreinlega um það skrímslin tíu séu að hræða okkur:
Skrímslin á ferð um Ísland
Fyrst maður er á annað borð búinn að prenta út og plasta skrímslin er upplagt að nota þau líka á fleiri vegu. Hér má sjá hugmynd þar sem við erum að leika okkur með forritunarbjölluna Maju (Blue-bot) en það er skemmtilegt lítið vélmenni hannað fyrir ung börn og er frábært til að þjálfa tilfinningu þeirra fyrir því að skipuleggja, telja, meta fjarlægðir og áttir og að vinna saman.
Fyrst röðuðum við bara skrímslunum og forrituðum Maju svo að hún gæti labbað um og "étið" þau eins og í hefbundnu Pacman-spili. Seinna tók ég stóra Íslandskortið mitt með í leikskólann og við völdum staði á Íslandi þar sem skrímslin ættu heima og síðan fór Maja til Akureyrar, Neskaupstaðs, Vatnajökuls o.s.frv. til að heimsækja þau. (Við lögðum glæran plastdúk með grind ofan á kortið til að hægt væri að telja skrefin sem það þyrfti að forrita Maju til að taka).