Krummadans

Krummadansinn er dansaður við hið fræga lag Ungverskur dans nr. 5 eftir Jóhannes Brahms. Fyrir nokkrum árum gerði ég við lagið þennan texta sem fjallar um krumma sem halda hrafnaþing til að ákveða hvernig eigi að forðast tófuna. Við notuðum þá lagið í danstíma með föstum danshreyfingum sem pössuðu við textann en í þetta sinn ákvað ég að gera það frjálslegra svo að tjáning barnanna líktist meira leik en dansi. Börnunum fannst það mjög gaman og Krummadansinn hefur verið mikilvægur þáttur í starfi okkar á Hrafnaþingi síðustu vikurnar, enda höfum við verið með hrafnaþema.

Það hefur glatt mig mikið hvernig börnin hafa tekið dansinn/leikinn til sín og hvernig það hefur styrkt tengslin milli okkar allra gegnum sameiginlega upplifun. Einn daginn var ég t.d. frammi á gangi þegar fjögurra ára strákur kom skyndilega til mín, horfði á mig glaður og og sagði: „Birta, manstu eftir Krummi fljúgðu hátt upp í loft?“ Ég brosti til baka og svaraði syngjandi: „Tófan læðist og hún er svo rosalega svöng - Fljúgðu krummi, fljúgðu hátt upp í loft!“. Hann hló og „flaug“ af stað inn á deildina sína.

Myndskeið

Krummadansinn

Krummi flýgur, flýgur nú
Flýgur yfir byggð og bú
Flýgur fyrr en vakna hjú
Svona flýgur krummi já, og svona flygur þú.

Dagur ris og - sólin kemur núna upp
Dagur ris og - sólin kemur núna upp
Tófan læðist og hún er svo rosalega svöng
Fljúgðu krummi, Fljúgðu hátt upp í loft!

Komum krummar 
höldum hrafnaþing!
Komum krummar 
höldum hrafnaþing!

Stönd-um sam-an
Tófuna við rekum burt!   
Stönd-um sam-an
Rekjum hana á bak og burt!

Krummi flýgur, flýgur nú
Flýgur yfir byggð og bú
Flýgur fyrr en vakna hjú
Svona flýgur krummi já, og svona flýgur þú!

Tónlist: Ungverskur dans nr. 5 eftir Brahms
Texti: Birte Harksen
Útgáfan sem ég nota er með íslensku hjómsveitinni Rússibanar og er hér á Spotify.

Myndir við söguna

Til að börnin sjái söguna skýrar fyrir sér bjó ég til nokkrar myndir í Canva til að sýna söguþráðinn í textanum. Hér eru þær í pdf-skjali.

Jóhannes Brahms

Brahms samdi 21 ungverskan dans á árunum 1867 til 1879 og gaf út í tveimur hlutum árin 1869 og 1880. Lögin byggði hann flest á ungverskum þjóðlögum, en dans nr. 5 var byggður á lagi eftir ungverska tónskáldið Béla Kéler, þótt Brahms hafi reyndar haldið að um þjóðlag væri að ræða.

Útsetning Brahms sjálfs á dansi nr. 5 er fyrir fjögurra handa píanó en sú hljómsveitarútsetning sem flestir þekkja var gerð síðar og er í annarri tóntegund. Hér er myndskeið sem sýnir píanóútgáfuna:

Alls konar krummar

Síðast breytt
Síða stofnuð