Börnunum finnst gaman að syngja þetta lag með mörgum hreyfingum, klappi, smellum og öðru óvæntu. Endinn er alveg í uppáhaldi en þar er sungið þrisvar sinnum "Gíraffar gægjast inn um gluggana enn" (fyrst venjulega, svo hátt og síðan mjög lágt). Annars verð ég að segja að mér hefur fundist furðulegt að það virðist ekki væra hægt að finna heimildir um lagið neins staðar á netinu. Ég mjög forvitin að komast að því hvaðan lagið kemur og yrði mjög glöð að fá ábendingar um það.
Velkomnir krakkar
Velkomnir krakkar í veröldina okkar.
Við skulum leika okkur,
við skulum XX. (klappa)
Öpunum klappa og klippa í pappa,
klifra í köðlum og klukka XX. (smella í góm)
Bíbb segir bílalestin,
blásandi fílalestin.
Leikbrúður, ljón og lyftingamenn.
Létt skoppa lömbin smáu,
langt uppi í himinháu.
Gíraffar gægjast inn um gluggana enn.
Gíraffar gægjast inn um gluggana enn. (hátt)
Gíraffar gægjast inn um gluggana enn. (lágt)
Höfundur ókunnur
Ath. Stundum er sungið: Langt uppi í turni háum í stað himinháu og stundum eru gíraffarnir að gægjast út í staðinn fyrir inn.
Myndskeið
Samkennarinn minn, hún Aurora Chitiga, hefur heiðurinn að því að kenna okkur þetta skemmtilega lag, en sjálf lærði hún það fyrir mörgum árum á leikskólunum Langholti. Börnin á deildinni hennar syngja hér lagið og gera handahreyfingar með til að styðja sönginn.
Myndskeiðið sýnir líka brot af læknisleik, þar sem vinur okkur gíraffinn er vafinn gifsi og borinn varlega á læknsisborðið. Leikurinn var greinilega uppsprottinn af nýupplifaðri reynslu eins barnsins af handleggsbroti. :)
Gíraffafræðsla
Eftir upptökurnar spjallaði ég við krakkana um það að gíraffar eru með langa, svarta tungu og tók fram símann til að sýna þeim mynd af því. Þetta leiddi til þess að við fundum líka dásamlegt myndskeið af fæðingu giraffaunga og börnin náðu í gíraffann okkar og vildu sýna honum hvernig það var þegar hann fæddist. Það fannst mér mjög krúttlegt :)
Svipmyndir
Gíraffinn okkar er úr Góða Hirðinum og börnunum þykir mjög vænt um hann og finnst gaman að hafa hann með í leik.