Vinátta í tónum og leikjum
Þróunarverkefni
Á hverju ári þegar elstu börnin kveðja leikskólann til að byrja í grunnskóla slitna mörg vinabönd. Þau skilja eftir vini sem þau hafa átt daglegt samneyti við um margra ára skeið. Það getur líka verið jafn erfitt fyrir krakkana sem verða eftir og byrja ekki í grunnskóla fyrir en ári seinna þar sem þau eiga líklega eftir að upplifa að gömlu vinirnir hafa eignast nýja vini og vinaböndin eru ekki lengur til staðar. Hvað getum við gert til að hamla á móti þessu?
Skólaárið '21-'22 var ákveðið að sækja um styrk til Kópavogsbæjar að vinna þróunarverkefni milli skólastiga undir heitinu Vinátta í tónum og leikjum. Tónlistarkennarar á Urðarhóli og Kársnesskóla voru umsjónarkonur verkefnisins. Þær heita Álfheiður Björgvinsdóttir, Birte Harksen og Þóra Marteinsdóttir.
Hittingar yfir veturinn
Við skipulögðum 5 samverur/hittinga yfir veturinn. Þessar hittingar tóku stað á mismunandi stöðum, í leikskólanum, í Kársnesskóla og á Rútstúni. Þar fyrir utan fórum við tónlistarkennararnir í heimsókn í skóla hvers annars og unnum með barnahópinn þar.
Rauður þráður í hittingunum var söngur, hreyfing, samvinna og útivera. Efnistökin byggðu á vináttu enda er hún mikilvægur hluti uppbyggingu jákvæðra samskipta milli árganga.
Um hittingana má lesa betur hér.
Markmið verkefnisins
Báðir barnahópar fengu færi á að varðveita og efla vináttu og kunningsskap sem myndaðist á leikskólaárunum.
Meginmarkmið verkefnisins var að elstu börnin í leikskólanum og fyrsti bekkurinn í grunnskólanum mynduðu og varðveittu traust tengsl á grundvelli jákvæðrar samveru sem einkenntist af leikjum, tónlist og dansi undir leiðsögn kennara af báðum skólastigum. Samveran átti sér stað í mismunandi samhengi, en rauður þráður í henni var vináttan. Verkefnið var einnig öðrum þræði hugsað sem forvörn gegn einelti.
Fyrir leikskólabörnin var viðbótarmarkmið að þau kynntust skólaumhverfinu og næðu góðum tengslum við eldri börn til að þau yrðu öruggari þegar þau sjálf byrjuðu í grunnskóla.
Fyrir grunnskólabörnin þá verður umbreytingin að byrja í nýjum skóla ekki eins skyndileg og skörp. Viðbótarmarkmið var að þau notuðu tilfinningatengsl sín við leikskólann til að efla vináttubönd við yngri börn og yrðu því líkleg til að verða þeim hjálparhellur þegar þau síðan myndu byrja í skóla.
Námsefni
Á vefsvæði sem tónlistarkennararnir bjuggu til um verkefnið má finna langan lista af námsefni, hugmyndir að lögum og lýsingar á dönsum og leikjum úr hittingunum. Í mörgum tilfellum er ennig hægt að finna og hlaða niður undirspili sem allir eru velkomnir að notfæra sér.
Smellið hér til að nálgast þetta námsefni.
Kátir Kársnesskrakkar
Til að auka samkennd á milli hópa þá var búið til sameiginlegt vinalag við þekkta laglínu. Öll börnin sem tóku þátt í verkefninu komu að gerð þessa lags. Hægt er að lesa meira um sameiginlega vinalagið okkar hér.
Ferlið var þannig að kennarar völdu laglínuna (Dýrin úti í Afríku) og sömdu upphafs- og lokaerindi ásamt viðlagi sem öll börnin lærðu. Þegar börnin voru búin að læra viðlagið þá fengu þau öll að semja sitt eigið erindi í lagið. Í sameiginlegum söng þá sungu öll börn upphafs- og lokaerindið. Einnig sungu öll börn viðlagið. Inn á milli söng hver hópur þann hluta lagsins sem hann hafði samið.