Við erum sjóræningjar!

Rétt fyrir sumarfrí fengu allir á Spóaþingi þetta lag aldeilis á heilann og sungu „Hei hó, úti á sjó“ við öll tækifæri. Lagið varð til í skemmtilegri samvinnu okkar Dario Čvorak sem er kennari á deildinni. Hann byrjaði einn daginn að spila lagið "What shall we do with a drunken sailor?" og ég lagði til að við myndum íslenska það og gera það aðeins meira barnavænlegt en líka að við ættum að útfæra það þannig að börnin gætu haft áhrif á textann með að stinga upp á hvað það er sem sjóræningjanir séu að bralla. Þegar Dario spilar á gítar verður alltaf gleði og fjör svo að það kom auðvitað ekki annað til greina en að syngja lagið á hreyfingu.

Við erum sjóræningjar!

[Em] Við erum sjóræningjar
[D] Við erum sjóræningjar
[Em] Hlustið nú á okkur syngja
[D] úti á opnu [Em] hafi!

Hei hó, úti á sjó
Hei hó, úti á sjó
Við fáum aldrei nóg,
hér úti á opnu hafi!

Öldurnar rísa og falla
Öldurnar rísa og falla
Hvað eigum við að bralla 
úti á opnu hafi?

Hér fá börnin að stinga upp á
hvað það er sem sjóræningjanir gera
Til dæmis:

Borða morgunmat
Setja páfagauk á öxl
Finna fjársjóðskistu
Reyna að veiða krókódíla
Fela gull á eyðieyju
Horfa gegnum sjónauka 
Setja kross á fjársjóðskortið
Skjóta úr fallbyssunni

Lag: Drunken sailor / Up she rises
Hugmynd og útfærsla: Birte og Dario

Sjóræningjaleikur

Þetta leiddi til margra skemmtilegra stunda með sjóræningjaleik. Við vorum með búninga sem settu svip á leikinn og bjuggum til sjóræningjaskip úr stórum pappakassa. Við máluðum líka gullmola og földum þá í sandkassanun og teiknuðum auðvitað fjársjóðskort með stóru rauðu X-i til að sýna hvar fjársjóðskistan var grafin.

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan er hægt að sjá svipmyndir úr þessum leik en líka frá því þegar við notum lagið í samverustund. Upptökurnar voru gerðar rétt fyrir sumarlokun leikskólans þannig að því miður voru mörg börnin farin í sumarfrí.

Myndskeið

Svipmyndir úr sjóræningjaleik

Síðast breytt
Síða stofnuð