X-spilið

Í þessu spili tengjast söngur, málörvun og samvera saman. Við snúum örinni eins hratt og við getum og bíðum spennt eftir að sjá hvar hún lendir og hvað við eigum að gera. Í þessari útgáfu eru sex myndir en maður getur auðvitað hannað snúningsspjaldið eins og maður vill. Í myndskeiðinu er ég að spila spilið með níu barna hópi en ég hef líka oft notað það í samverustund með heilli deild.

Þetta spil er einfalt að búa til. Það eina sem þarf er að finna snúningsplötu eða búa hana til. Platan sem ég nota er bakhliðin á snúningplötu sem fylgdi spili sem ég fann í Góða hirðinum. En það er líka hægt að panta auðar snúningsplötur á netinu, t.d. gegnum Amazon. Það er líka hægt að búa slíka plötu til sjálfur ef því er að skipta.

Hér er pdf-skjal til útprentunar með myndunum sem ég nota á spilaplötunni.

Myndskeið

"X"

Spilið heitir X-spilið vegna þess að það skemmtilegasta gerist þegar við lendum á X-reitnum. Þá krossa allir handleggina fyrir framan sig og segja hátt og skýrt: „X!“ Síðan fær barnið sem sneri skífunni að draga bókstaf úr stafakassanum og í sameiningu reynum við að finna nöfn eða orð sem byrja á þeim bókstaf.

Spilareglur

Á myndinni hér fyrir neðan (og líka í PDF-skjalinu) er hægt að sjá lýsingu á því hvað við gerum þegar örin lendir á mismunandi reitum. Ef börnin eru mörg er sniðugt að breyta stundum til svo að það séu ekki of margar endurtekningar. T.d. getur maður sungið talnarununa í stað þess að telja eða maður getur tekist í hendur á kross eða krækt olnbogunum saman í stað þess að takast í hendur á venjulegan hátt. Gefið hugmyndafluginu lausan tauminn og látið börnin koma með uppástungur um tilbreytingar.

Spilareglur (PDF)

Do-re-mi tákn

Eins og sést í myndskeiðinu nota ég ekki hefðbundin stuðningstákn með höndunum (oft kennd við Kodaly eða Curwen) þegar við syngjum Do-re-mi, en það er auðvitað upplagt að gera ef maður kann þau og langar að kenna börnunum þau. Þessi stuðingstákn sjást á myndinni hér að neðan.

Síðast breytt
Síða stofnuð